Frumvarp til laga um Ferðatryggingasjóð birt í samráðsgátt
Bendum á að í samráðsgátt stjórnvalda hefur verið birt frumvarp til laga um Ferðatryggingasjóð og reglugerð sem sett verður til nánari útfærslu fyrir sjóðinn. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót nýju tryggingakerfi fyrir pakkaferðir í stað þess sem nú gildir.
Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytins segir m.a.: "Hið nýja fyrirkomulag felst í stofnun sameiginlegs tryggingasjóðs sem tryggir endurgreiðslur til ferðamanna við ógjaldfærni eða gjaldþrot seljenda pakkaferða.
Núgildandi kerfi hefur verið afar dýrt og óheppilegt í framkvæmd fyrir margar ferðaskrifstofur án þess að veita fullnægjandi neytendavernd eins og því er þó ætlað að gera. Með stofnun Ferðatryggingasjóðs er komist hjá þessum ókostum, neytendum jafnt sem ferðaskrifstofum til mikilla hagsbóta. Hið nýja kerfi tryggir fulla endurgreiðslu til neytenda en í gildandi kerfi er örðugt um vik að láta tryggingarfjárhæð ávallt endurspegla raunverulega tryggingaþörf. Að sama skapi lækkar verulega það fé sem ferðaskrifstofur þurfa að binda hjá Ferðamálastofu til tryggingar fullum efndum pakkaferða. Hagræði af hinu nýja kerfi fyrir ferðaskrifstofur má gróflega áætla um hálfan milljarð króna á ári.
Við vinnslu frumvarpsins var uppbygging danska og norska tryggingasjóðanna höfð til hliðsjónar auk ráðgjafar tryggingastærðfræðings. Gert er ráð fyrir að hinn nýi tryggingasjóður verði stofnaður 1. júlí nk."
Frumvarpið og reglugerðina má finna hér í Samráðsgátt stjórnvalda- hægt er að skila inn athugasemdum til 12. mars 2021.