Frumvarp til laga um Íslandsstofu
Frumvarpi til laga um Íslandsstofu var dreift á Alþingi í gær. Markmið laganna er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins, eins og segir í 1. grein frumvarpsins.
Í 2. grein er fjallað um hlutverk Íslandsstofu, sem er:
- a. að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að efla ímynd og orðspor Íslands,
- b. að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir útflutningi á vöru og þjónustu,
- c. að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi,
- d. að upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál,
- e. að styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis.
Íslandsstofa er stofnuð á grunni Útflutningsráðs Íslands, sem fær með þessu viðameiri verkefni, eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu. Í fyrsta lagi er Íslandsstofu ætlað að setja skýran ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu og þekkingariðnaði koma til samstarfs við hið opinbera um að efla og standa vörð um orðspor Íslands erlendis. Í öðru lagi er Íslandsstofu ætlað það hlutverk að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdri og stefnumiðaðri kynningu á Íslandi sem áfangastað. Hér er um að ræða núverandi markaðs- og kynningarstarf Ferðamálastofu gagnvart erlendum mörkuðum, en rekstur þess mun flytjast í heild yfir til Íslandsstofu.
Tekið er fram að breytingin hafi ekki áhrif á núverandi fjárveitingar til þeirra verkefna sem með lögunum munu heyra undir Íslandsstofu, þ.e. fjárveitingar til Útflutningsráðs og til markaðs- og kynningarstarfs Ferðamálastofu. Þá er ekki gert ráð fyrir að hið breytta fyrirkomulag hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þvert á móti er verið að mæta kröfum um bætt samstarf, skýrari stefnu og aðgerðir til að efla og standa vörð um ímynd og orðspor Íslands með því að hagræða og nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til markaðs- og kynningarstarfa erlendis. Af níu manna stjórn Íslandsstofu munu samtök atvinnulífsins tilnefna fimm.
Frumvarp um Íslandsstofu í heild sinni