Fyrsta fullbúna hótelið í Dalvíkurbyggð
Nýtt hótel, Hótel Sóley, var formlega opnað á Dalvík nú í byrjun júní og er það fyrsta fullbúna hótelið í Dalvíkurbyggð. Þar eru 25 tveggja manna herbergi með snyrtingu, sjónvarpi og öðru tilheyrandi, ásamt veitingasal.
Sóley er í eigu bræðranna Sigurðar og Reynalds Jónssona og rekið í húsi sem áður var heimavist Dalvíkurskóla. Þeir keyptu húsið af ríkinu í febrúar síðastliðnum og hófu þegar á því gagngerar breytingar. Framkvæmdakostnaður er um 70 milljónir króna. Hótelstjórinn er þýskur, Claudio Wabner, að nafni, menntaður hótelrekstrarfræðingur og hefur langa reynslu af rekstri hótela í Þýskalandi, segir í frétt frá hótelinu.
Eigendur Sóleyjar hafa á prjónum frekari framkvæmdir við uppbyggingu hótelsins með fjölgun gistiherbergja og hugmyndir eru einnig uppi um að byggja 150-200 manna veislu- og ráðstefnusal við húsið. Hótel Sóley hefur opnað heimasíðuna www.hotel-soley.com
Á Hótel Sóley eru 25 tveggja manna herbergi með snyrtingu, sjónvarpi og öðru tilheyrandi, ásamt veitingasal. | Egeindurnir Sigurður Jónsson og Reynald Jónsson með hótelstjórann Claudio Wabner á milli sín. |