Fyrsta þriggja stjörnu superior hótelið á Íslandi
Adda Jóhanna Sigurðardóttir og Magnús Bragason með viðurkenningu Vakans sem Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir frá Ferðamálastofu afhenti þeim.
Það er með sannri ánægju sem við segjum frá því að Hótel Vestmannaeyjar er nýjasti þátttakandinn í Vakanum og flokkast nú sem þriggja stjörnu hótel superior, fyrst hótela á Íslandi. Einnig fær Hótel Vestmannaeyjar bronsmerki í umhverfishluta Vakans.
43 herbergi eru á hótelinu en undanfarin misseri hafa staðið yfir miklar endurbætur þar á bæ og má t.d. nefna að 24 herbergi eru í nýbyggingu sem tekin var í notkun um mitt ár 2014.
Eigendur hótelsins eru heimafólkið Adda Jóhanna Sigurðardóttir og Magnús Bragason. „Við eigendur og starfsfólk Hótels Vestmannaeyja höfum metnað til að veita gestum okkar góða þjónustu. Með innleiðingu á gæðakerfi Vakans höfum við fengið ráðleggingar fagfólks um hvað við getum gert betur. Við höfum fylgt þessum ráðleggingum og finnum hverju það skilar. Gestir okkar eru ánægðari og við öruggari þar sem við vinnum með viðurkennd gæðaviðmið Vakans að leiðarljósi“ sagði Adda Sigurðardóttir hótelstjóri en hún ásamt eiginmanni sínum Magnúsi hefur staðið vaktina við innleiðinguna og sem skilar þeim nú þessum glæsilega árangri.
Óskum við þeim og starfsfólki innilega til hamingju með áfangann og góðs gengis í framtíðinni.