Fyrsti stjörnuflokkaði gististaðurinn í VAKANN
Ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, afhenti viðurkenninguna á ferðakaupstefnunni Icelandair Mid-Atlantic sl. föstudag. Hér er hún með eigendum Hótel Rauðuskriðu og starfsfólki VAKANS.
Hótel Rauðaskriða er fyrsti stjörnuflokkaði gististaðurinn innan VAKANS, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar. VAKINN hefur nú tekið við sem opinbert stjörnuflokkunarkerfi fyrir gististaði á Íslandi.
Gæðamál í hávegum höfð
Hótel Rauðaskriða flokkast sem þriggja stjörnu hótel samkvæmt gæðaviðmiðum þeim sem unnið er eftir og sem taka mið af viðmiðum Hotelstars í Evrópu. Auk þess fær hótelið gull-flokkun í umhverfishluta VAKANS en hótelið var með Svansvottun fyrir. Hótel Rauðaskriða er 32 herbergja fjölskyldurekið hótel, vel staðsett um miðja vegu á milli Húsavíkur og Akureyrar. Það hefur um árabil tekið þátt í stjörnuflokkun gististaða, sem VAKINN hefur nú leyst af hólmi, sem fyrr segir.
Hótel, gistiheimili og heimagisting tilbúin
Í gistihluta VAKANS eru nú tilbúin gæðaviðmið fyrir hótel, gistiheimili og heimagistingu og geta allir þeir sem reka gististaði í þessum þremur flokkum sótt um stjörnuflokkun nú þegar. Síðar á árinu munu svo bætast við gæðaviðmið fyrir hostel, tjaldsvæði og orlofsíbúðir og bústaði.
Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu VAKANS www.vakinn.is