Fyrstu skrefin í einföldun regluverks í ferðaþjónustu; skráning heimagistingar einfölduð
Einstaklingum, hjónum og sambúðarfólki verður heimilt að leigja út lögheimili sitt auk einnar annarrar fasteignar í allt að átta vikur á ári samkvæmt frumvarpi sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi til breytinga á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Fækka leyfislausum og óskráðum gististöðum
Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis kemur fram að með frumvarpinu er ætlunin að auðvelda skráningu á heimagistingu fyrir aðila sem eru nú þegar að leigja út heimili sín til ferðamanna hluta úr árinu. Heimilt verður að leigja lögheimili og frístundahús skv. frumvarpinu í allt að 8 vikur samtals á ári. Markmiðið er að fækka leyfislausum og óskráðum gististöðum og draga þannig úr svartri atvinnustarfssemi. Lögaðilum verður ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar.
Skráningarskylda í stað leyfis
Meginbreytingin er sú að í stað leyfis er gert ráð fyrir að skráaningarsylda sé nægjanleg. "Rekstur heimagistingar skv. 3. gr. er skráningarskyld starfsemi. Einstaklingi, hjónum eða sambýlisfólki ber að tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hefja eigi starfsemi, greiða skráningargjald og uppfylla kröfur um brunavarnir á heimili og/eða í fasteign. Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd og skilyrði fyrir skráningu á heimagistingu," segir m.a. í frumvarpinu.
Frekri tillögur væntanlegar
Frumvarpið er samið af starfshópi ráðuneytisins sem í eiga sæti, auk fulltrúa iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fulltrúar innanríkisráðuneytisins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hópurinn hefur m.a. haft til viðmiðunar skýrslu Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu sem unnin var undir af stýrihópi á síðasta ári að beiðni iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undir formennsku helenu Karlsdóttur, lögfræðins Ferðamálastofu. Sú vinna var í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks atvinnulífsins sem unnið hefur verið markvisst að allt kjörtímabilið. Starfshópurinn er enn að störfum og er búist við frekari einföldunartillögum frá honum á næstu mánuðum.