Fyrstu þátttakendur í Ratsjánni útskrifaðir
Í gær lauk fyrstu Ratsjánni en verkefnið hófst með fundi á Hvítá í Borgarfirði í september 2016. Verkefnið miðar að því að efla rekstrar og nýsköpunargetu fyrirtækjanna og styðja við fagmennsku og gæði í ákvörðunartöku.
Þátttakendur frá átta framúrskarandi fyrirtækjum útskrifuðust eftir lokafund sem haldinn var á Akureyri. Ferðamálastofa er meðal bakhjarla verkefnisins sem stýrt er af Íslenska ferðaklasanum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands en ráðgjafi verkefnisins var Hermann Ottosson. Aðrir bakhjarlar að Ratsjánni eru Valitor, Landsbankinn og Félag ferðaþjónustubænda.
Verkefnið byggir upphaflega á finnskri fyrirmynd sem Íslandsstofa tók upp sem Spegilinn og þótti takast vel til. Ratsjáin er að nokkru byggð á þeirri hugmyndafræði auk annarra stuðningsverkefna sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur staðið fyrir s.s Skapandi ferðaþjónusta. Þá gangast allir þátttakendur undir sjálfsmat sem kallast Innovation Health Check og er framkvæmt af ráðgjöfum Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir hvern og einn fund.
Þátttakendur í Ratsjánni 2016-17 eru:
- Hótel Gullfoss
- Nonni Travel er ferðaskrifstofa staðsett á Akureyri.
- Hvítárbakki er Gistiheimili í Borgarfirði.
- Travel East er ferðaskrifstofa staðsett á Breiðsdalsvík
- Hvalaskoðun Akureyri er fjölskyldufyrirtæki og dótturfyrirtæki Eldingar.
- Óbyggðasetur Íslands er metnaðarfull sýning, gististaður og upplifurnarferðaþjónusta staðsett í Fljótsdal
- Húsið Guestehouse er gistiheimili í Fljótshlíðinni.
- Iceland Rovers sérhæfir sig í að búa til réttu jeppaferðina. Iceland Rovers er dótturfyrirtæki Iceland Mountaineers og er því byggt á traustum grunni.
Í samtali við þátttakendur hefur m.a. komið í ljós að verkefnið hafi hjálpað þeim að setja skýrari stefnu fyrir reksturinn, ýmiss hagræðing átt sér stað s.s betri skipulagning og betri nýting mannauðs. Þá hafa þátttakendur lært að nota mismunandi verkfæri til að greina reksturinn sinn og nýta til að vega og meta nýjar fjárfestingar auk nýsköpunar og þróunarverkefna innan fyrirtækjanna.
Ratsjáin gengur út á jafningjafræðslu en það eru þátttakendurnir sjálfir sem mynda ráðgjafahópa fyrir hvert annað. Þátttakendur hafa samanlagða áratuga reynslu af rekstri og uppbyggingu í ferðaþjónustu og eru því dýrmætur þekkingarbrunnur fyrir hvert annað.
Tilkynnt verður um umsóknarfrest fyrir næsta Ratsjár verkefni á næstu vikum.