Gistinætur á hótelum í október
Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur og gestakomur á hótelum í október. Sem fyrr er vert að benda á að tölurnar ná aðeins til hótela sem opin eru allt árið en ekki annarar gistingar.
Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 101.900 en voru 106.400 í sama mánuði árið 2009. Fækkun gistinátta í október nær eingöngu til höfuðborgarsvæðisins, en í öllum öðrum landshlutum var aukning á gistinóttum milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum um 10% milli ára, úr 81.300 í 73.400. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Norðurlandi, úr 3.800 í 5.100 eða um 35% milli ára. Á Suðurnesjum voru 5.200 gistinætur í október sem 28% fjölgun frá fyrra ári. Á Austurlandi voru 2.400 gistinætur, fjölgaði um 16% og á Vestfjörðum og Vesturlandi voru 2.600 gistinætur í október sem er aukning um 15% frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru 13.100 gistinætur í október sem er 3% aukning samanborið við október 2009.
Fækkun gistinátta á hótelum í október nær eingöngu til erlendra gesta. Gistinóttum þeirra fækkaði um 9% samanborið við október 2009 á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 11%.