Gistinætur heilsárshótela í mars
Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í mars síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast þannig hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 22% í mars
Gistinætur á hótelum í mars voru 163.200 og fjölgaði um 22% frá mars í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru um 79% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 26% frá sama tíma í fyrra. Jafnframt fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 10%.
Skipting eftir landshlutum
Á höfuðborgarsvæðinu voru 115.700 gistinætur á hótelum í marsmánuði og fjölgaði um 11% frá sama mánuði í fyrra. Gistinóttum fjölgaði umtalsvert á Austurlandi og voru þar 6.000 gistinætur í mars samanborið við 2.100 í mars 2012. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 6.200 gistinætur í mars eða tvöfalt fleiri en í mars 2012. Á Norðurlandi voru 11.300 gistinætur í mars sem er 80% aukning frá fyrra ári. Á Suðurnesjum voru um 7.000 gistinætur í mars en það samsvarar til 36% aukningar frá sama mánuði í fyrra. Á Suðurlandi voru 17.200 gistinætur á hótelum til samanburðar við 13.100 í mars 2012.
Gistinætur á fyrsta ársfjórðungi
Gistinætur á hótelum í janúar, febrúar og mars voru 391.600 til samanburðar við 309.077 fyrir sama tímabil árið 2012. Gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 31% samanborið við fyrsta ársfjórðung árið 2012 á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 10%.