Gistinætur heilsárshótela í september
Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í september síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gistinóttum fjölgar um 20%
Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 136.400 samanborið við 113.900 í september 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í september og fjölgaði gistinóttum þeirra um 22% frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 11% samanborið við september 2010.
Gistinóttum á hótelum í september fjölgaði á öllum landssvæðum samanborið við september 2010. Á Austurlandi voru 5.200 gistinætur í september og fjölgaði gistinóttum um 38% milli ára. Á höfðuborgarsvæðinu voru gistinætur 97.700 í september sem er 25% aukning frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur 4.600 sem er 10% aukning samanborið við september 2010. Á Suðurlandi og á Suðurnesjum fjölgaði gistinóttum um 7% samanborið við september 2010, voru 12.600 á Suðurlandi og 5.800 á Suðurnesjum. Á Norðurlandi voru 10.600 gistinætur í september sem eru um 3% aukning frá fyrra ári.
Fjölgun um rúm 13% fyrstu níu mánuði ársins
Gistinætur fyrstu níu mánuði ársins voru 1.222.500 en voru 1.079.800 á sama tímabili árið 2010. Gistinóttum hefur fjölgað milli ára á Suðurnesjum um 18%, á höfuðborgarsvæðinu um 16% og á Austurlandi um 7%. Á Norðurlandi, Suðurlandi og á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða hefur gistinóttum fjölgað um 6% á milli ára.
Á Fyrstu níu mánuðum ársins hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 12% og gistinóttum Íslendinga um 19% samanborið við fyrra ár.