Gistinætur og gestakomur á gistiheimilum
Bráðabirgðatölur yfir gistinætur og gestakomur á gistiheimilum fyrstu tvo ársþriðjungana þessa árs liggja nú fyrir hjá Hagstofunni. Margt athyglisvert kemur fram í þessum tölum.
Gistirými í þessum flokki jókst á milli ára
Til þessa flokks gististaða teljast gistiheimili, íbúðarhótel, sumargistiheimili og sumarhótel. Gististöðum í þessum flokki fjölgaði um 13 á fyrsta ársþriðjungi 2002. Þar af fjölgaði um fjóra á höfuðborgarsvæðinu og sex á Vestfjörðum. Mánuðina maí-ágúst fjölgaði gististöðum í þessum flokki um níu, þar af fjölgaði um þrjá á höfuðborgarsvæðinu og fjóra á Vestfjörðum. Athuga skal að breytingar á fjölda gististaða má að einhverju leyti rekja til breyttrar skráningar á Hagstofunni eða til breytts rekstrarforms gististaða. Heildarfjölgun eða fækkun gististaða á Íslandi má því best sjá þegar allri talningu gistinátta er lokið fyrir árið 2002.
Gistinóttum fjölgaði á fyrsta ársþriðjungi
Mánuðina janúar-apríl fjölgaði gistinóttum á gistiheimilum á Íslandi úr 37.922 árið 2001 í 39.025 árið 2002, eða um tæp 3%. Þar af fjölgaði gistinóttum vegna Íslendinga um tæp 12% milli ára meðan gistinóttum útlendinga fækkaði um tæp 5%. Gestakomum á tímabilinu fækkaði um 3% sem gerir meðaldvalarlengd gesta rúmar 2 nætur.
Á fyrsta ársþriðjungi fækkaði gistinóttum á milli ára á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi, Norðurlandi eystra og vestra. Gistinóttum fjölgaði hinsvegar á sama tíma á Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Sérstaka athygli vekur að gistinætur á Austurlandi rúmlega tvöfaldast á milli áranna 2001 og 2002.
Tæp 17% aukning gistinátta yfir sumartímann
Árið 2001 töldust gistinætur í maí-ágúst vera 328.867 á gistiheimilum á Íslandi. Árið 2002 töldust þær svo vera 383.569 en það er aukning um tæp 17%. Gistinóttum vegna Íslendinga fækkaði um rúm 3% á meðan útlendingum fjölgaði um rúm 24%. Gestakomum fjölgaði um tæp 20% og dvöldu því gestir að meðaltali 1,44 nætur. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum yfir sumartímann árið 2002. Mest var þó aukningin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og Vesturlandi, en þar taldist aukningin um 29% á milli ára.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.