Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 2,2 milljörðum meiri
Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans um gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrstu 9 mánuði ársins 2004 urðu þær alls 32,6 milljarðar króna en voru á sama tíma árið 2003 30,4 milljarðar kr. Reiknað er með að tölur fyrir árið í heild liggi fyrir um miðjan næsta mánuð.
Breytt samsetning tekna
Breyting verður áfram í skiptingu teknanna, þar sem fargjaldatekjur aukast um 0,4 milljarða eða tæp 3,7% úr 10,7 milljörðum í 11,1 milljarð króna en tekjur vegna neyslu erlendra ferðamanna í landinu aukast um nær 1,8 milljarða króna úr 19,7 milljörðum í 21,5 milljarða eða um 8,8%. Þetta er áframhald þeirrar þróunar undanfarinna ára að neysla erlendra gesta í landinu eykst hlutfallslega mun meira en gjaldeyristekjur af ferðalögum þeirra til og frá landinu.
Dreifist um allt hagkerfið
"Þessir 21,5 milljarðar, sem erlendir gestir eru að nota í landinu fyrir utan fargjöld til landsins fyrstu 9 mánuði ársins, dreifast um allt hagkerfið og koma fram hjá hefðbundnum ferðaþjónustufyrirtækjum, verslunum og í vaxandi mæli hjá ýmsum öðrum þjónustufyrirtækjum. Aukin notkun bílaleigubíla skilar t.d. auknum hluta tekna til olíufélaga, og þá til ríkisins, þar sem aukin eldsneytiskaup skila auknu veggjaldi. Þá sýna niðurstöður kannana að erlendir gestir dreifðust í sumar meira um landið en fyrr og keyptu í auknum mæli afþreyingarþjónustu .Þessi 1.800 milljóna króna aukning í neyslu erlendra gesta fyrstu 9 mánuði ársins hlýtur að auka forsendur fyrir arðsemi þjónustufyrirtækjanna," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.
Hann bætir við að þessa fyrstu 9 mánuði hafi komið hingað um 300.000 erlendir gestir þannig að meðalneysla þeirra í landinu sé jafnvirði um 70.000 kr.