Fara í efni

Gleðilegt ferðaár 2011

Áramót
Áramót

Í greininni hér á eftir fer Ólöf Ýrr Atladóttir í nokkrum orðum yfir ferðaárið 2010 og mikilvægi greinarinnar fyrir þjóðarbúið, ásamt því að horfa til framtíðar og þeirra spennandi verkefna sem framundan eru hjá Ferðamálastofu á árinu 2011.

Ár ögrandi verkefna
Í byrjun ársins 2010 var mikil bjartsýni ríkjandi í íslenskri ferðaþjónustu. Fregnir bárust um góða bókunarstöðu hjá stórum fyrirtækjum og allt útlit var fyrir að ferðaárið í ár myndi jafnvel verða hið stærsta frá upphafi. Í þessu samhengi örlaði á áhyggjuröddum þeirra sem fylgst höfðu með ágangi á vinsælum ferðamannastöðum metsumarið 2009.  Umræðan um nauðsyn þess að snúa vörn í sókn í þessum efnum, dreifa ferðamönnum betur í tíma og rúmi, jókst að þunga.

Gosið í Eyjafjallajökli setti alvarlegt strik í reikninginn. Bókanir hættu að berast, á árstíma þar sem þær áttu að vera að flæða inn af krafti, og neikvæð og á tímum villandi umræða erlendra fjölmiðla vakti ótta um að sumarið 2010 myndi verða ferðaþjónustuaðilum þungt í skauti. Sameiginlegt markaðsátak stjórnvalda og ferðaþjónustunnar, Inspired by Iceland, gerði sitt til að snúa þeirri þróun við, en önnur jákvæð áhrif þess átaks eiga að líkindum eftir að koma fram á næstu árum. Þarna var ráðist í heildstætt kynningarátak í virkri samvinnu, þar sem kynningarmiðlar voru nýttir á nýstárlegan hátt og með heildarsýn að leiðarljósi. Átaksverkefnið sýndi hvernig aðilar geta tekið höndum saman til að bregðast við bráðavanda og víst að reynslan sem þarna varð til mun nýtast í framtíðinni við viðlíka aðstæður. 

Því má þó ekki gleyma að markaðssetning íslenskrar ferðaþjónustu er ekki grundvölluð á átaksverkefnum, heldur viðvarandi vinnu við að vekja og viðhalda áhuga almennings og söluaðila á erlendum mörkuðum. Sú vinna byggir á daglegum samskiptum, sterkum skilaboðum og heildarsýn, þar sem hlutverk hins opinbera í almennri landkynningu er vel skilgreint.

Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið
Nú í lok ársins 2010 gefa tölur til kynna milli eins og tveggja prósenta fækkun ferðamanna. Árangurinn er þannig vel ásættanlegur þegar litið er til þeirra atburða sem áttu sér stað á árinu. Jákvæðar fréttir erlendra fjölmiðla upp á síðkastið, þar sem Ísland er sett í öndvegi áfangastaða næsta árs eru meðal þess sem vekja vonir um að árið verði gjöfult.  En aukinn fjöldi ferðamanna kallar á aukna uppbyggingu – og í ljósi þess að helsta auðlind ferðaþjónustunnar er sameign okkar í íslenskri náttúru, þurfum við nú að taka höndum saman um að byggja upp gæðaferðaþjónustu sem vaxið getur til framtíðar í sátt við umhverfið. Þar hefur Ferðamálastofa mikilvægu hlutverki að gegna.

Ferðaþjónustan er ein okkar mikilvægustu atvinnugreina og er ennfremur kjörinn vettvangur samvinnuverkefna á vegum hins opinbera og einkaaðila, vegna þess m.a. að hagsmunir þeir sem ferðaþjónustunni tengjast eru svo víðfeðmir.

Íslendingar allir eiga þannig mikilvægra hagsmuna að gæta, þar sem ferðaþjónustan er mikilvæg tekjulind. Atvinnugreinin skilaði 155 milljörðum króna í gjaldeyristekjum til þjóðarbúsins árið 2009, sem var um 21% aukning frá árinu áður. Ferðaþjónustufyrirtæki eiga hagsmuni að gæta í því að hér þróist sjálfbær gæðaferðaþjónusta, þar sem þau skilaboð eru send út að almenningur og rekstraraðilar beri virðingu fyrir umhverfi sínu og sérstæðri náttúru landsins. Tryggja þarf öryggi ferðamanna, bæði á vinsælum ferðamannastöðum og  með því að skilgreina ramma fyrir ferðaþjónustuverkefni að starfa eftir. Gera þarf kröfur til fyrirtækja um gæði vöru og þjónustu.

Ferðaþjónustan skapar störf um allt land og við þurfum að vinna að því að auka arðsemi þeirra starfa og tryggja að um sem flest heilsársstörf verði að ræða. Ferðaþjónustan er mikilvægur liður í byggðafestu og tryggir íbúum víða um land þjónustu sem ekki væri til staðar ef ferðamanna nyti ekki við. Ferðaþjónustan þarfnast nýsköpunar, sem byggir á þekkingu, en upplýsingar sem Ferðamálastofa tók saman á árinu sem er að líða gefa til kynna að hlutur atvinnugreinarinnar í rannsóknar- og nýsköpunarsjóðum sé einungis um 0,5% sem er  sérkennilegt þegar vægi greinarinnar fyrir þjóðarbúið er skoðað.
Fjölmörg verkefni framundan

Spennandi ár framundan
Ferðamálastofa er tilbúin að einhenda sér í þau verkefni  sem vinna þarf – og þegar hefur verið hafist handa. Ferðamálastofa hefur í samvinnu við hagsmunaaðila og aðra aðila stoðkerfisins hleypt af stokkunum fjölmörgum verkefnum sem miða að því að styrkja ferðaþjónustuna til framtíðar:

  • Metnaðarfullt gæða- og umhverfisvottunarkerfi, grundvallað á Qualmark kerfi Nýsjálendinga, er í startholunum, en merki þess og nafn var kynnt á dögunum. Stefnt er að því að þetta kerfi nái til flestra þátta ferðaþjónustunnar og verði leiðbeinadi fyrir fyrirtæki í uppbyggingu, um leið og það gerir kröfur til þeirra um metnað og þjónustu.
  • Á nýju ári verður hafin vinna, í samvinnu við ferðaþjónustuaðila og rannsakendur, við að skilgreina áherslur og stefnu í rannsóknum á sviði ferðaþjónustu, en sú vinna verður grundvölluð á þeirri ferðamálastefnu sem unnin var á vegum iðnaðarráðherra á árinu og lögð verður fyrir Alþingi í upphafi nýs árs.  Ferðamálastofa hefur unnið að ýmsum rannsóknar- og rýniverkefnum á árinu, sem gagnast bæði fyrirtækjum og hinu opinbera í stefnumótun og ákvarðanatöku.
  • Verið er að leggja lokahönd á öryggisstefnu fyrir ferðamannastaði, en sú stefna er unnin af Ferðamálastofu í góðri samvinnu við Umhverfisstofnun og Slysavarnafélagið Landsbjörgu.
  • Endurskoðun á lögum um skipan ferðamála stendur yfir, en þar er m.a. horft til þeirra öryggiskrafna sem setja á fyrirtækjum á sviði ferðaþjónustu.
  • Verið er að vinna áætlun um ferðamennsku á hálendi Íslands á vegum Háskóla Íslands, en sú vinna er fjármögnuð af iðnaðarráðuneytinu.  Ferðamálastofa heldur utan um verkefnið fyrir hönd ráðuneytisins og hefur stutt við grunnrannsóknir á þessu sviði með ráðum og dáð.
  • Ferðamálastofa hýsir f.h. iðnaðarráðuneytis þróunarverkefnið Heilsulandið Ísland (islandofhealth.is).  Um er að ræða metnaðarfullt verkefni, sem nýtir okkar náttúrulegu auðlindir og sem ferðaþjónustuaðilar um allt land geta haft hag af.
  • Með tilkomu Framkvæmdasjóðs ferðaþjónustunnar, sem verður í vörslu Ferðamálastofu, opnast tækifæri til heildstæðrar áætlunargerðar á sviði uppbyggingar á ferðamannastöðum um allt land. Ennfremur gætu opnast möguleikar til að nýta aðra fjármuni í nýsköpunar- og þróunarverkefni.
  • Þróunarverkefni á sviði menningarferðaþjónustu og matarferðaþjónustu, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafði umsjón með í samvinnu við Ferðamálastofu, eru að skila góðum árangri og sýna fram á árangur þess að nýta aðferðafræði klasavinnu á sviði ferðaþjónustu, en hjá Nýsköpunarmiðstöð vinna margir helstu sérfræðingar okkar á þessu sviði.
  • Fyrirhugað er að efla kynningarstarf gagnvart innlendum ferðamönnum, en endurnýjaður kynningar- og kortavefur Ferðamálastofu er fyrsta skrefið í þeim efnum.  Markaðsstofur landshlutanna gegna hér mikilvægu hlutverki og stefnt er að því að efla samstarfið við þær á árinu.

Af framangreindri upptalningu má sjá að spennandi tímar eru framundan á næsta ári.  Jafnljóst er að þessi verkefni verða ekki unnin nema í góðri samvinnu allra hagsmunaaðila – reynslan sýnir að þannig verður árangurinn bestur.  Fyrir hönd Ferðamálastofu óska ég okkur öllum velfarnaðar á komandi ári og hlakka til samstarfsins.

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri