Góður rómur gerður að Ferðatorgi 2005
Áætlað er að um 15.000 manns hafi komið í heimsókn á Ferðatorg 2005 sem haldið var í Vetrargarði Smáralindar um liðna helgi. Ferðatorgið er sett upp sem markaðstorg ferðaþjónustu á Íslandi þar sem fólk getur kynnt sér þá fjölmörgu valmöguleika sem er að finna á ævintýralandinu Íslandi.
Ferðatorgið var nú haldið í fjórða sinn en að því standa Ferðamálasamtök Íslands með stuðningi Samgönguráðuneytisins og Ferðamálaráðs Íslands. Innan Ferðamálasamtakanna eru átta landshlutafélög sem öll tóku þátt í sýningunni og kynntu hvert sinn landshluta. Einnig voru fleiri félög og fyrirtæki meðal þátttakenda og m.a. var sérstök kynning á golfvöllum landsins. Skipulög dagskrá var meira og minna í gangi alla helgina og ekki annað að sjá en að fólk skemmti sér vel.?Ég tel ótvírætt að Ferðatorgið sé að festa sig betur í sessi með hverju árinni sem líður og gestum hefur fjölgað ár frá ári. Einnig er gaman að sjá hvað sýnendur eru að leggja mikla vinnu í bása sína og enda eru það þeir sem gera sýninguna jafn glæsilega og raun ber vitni,? segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.
Sýnendur voru einnig ánægðir. ?Mér fannst mun meiri umferð um torgið heldur en í fyrra. Við vorum með sólarstrandastemmning, vorum í Hawai-skyrtum, tókum nokkur létt lög og blönduðum kokteila. Þetta var mjög skemmtilegt", sagði Rúnar Óli Karlsson, ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar í frétt á bb.is.
Viðurkenningar fyrir bása
Í kvöldverðarhófi tengdu sýningunni voru veittar viðurkenningar fyrir vel útfærða bása. Þannig fékk Suðurland verðlaun fyrir ?frumlegasta básinn?, Vestfirðir fyrir ?skemmtilegasta básinn? og Norðurland fyrir ?besta básinn?. Fréttir af sýningunni má meðal annars finna á bb.is, talknafjordur.is
Mynd:
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setur Ferðatorg 2005 og Pétur Rafnsson formaður Ferðamálasamtaka Íslands, við hlið hans. Ljósmynd HA
Fleiri myndir frá Ferðatorgi 2005