Grand Hótel fær Svansleyfi
Grand Hótel Reykjavík fékk í dag, fyrst hótela í Reykjavík, vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti Ólafi Torfasyni, stjórnarformanni Grand Hótel Reykjavík vottunina á ársfundi Umhverfisstofnunar, sem er einmitt haldinn á Grand Hótel Reykjavík eftir hádegi í dag. Fundurinn er sendur út í beinni útsendingu á umhverfisstofnun.is.
Grand Hótel Reykjavík er stærsta hótelið á landinu og tekur á móti tugþúsundum gesta alls staðar að úr heiminum á hverju ári. Þegar Grand Hótel Reykjavík sótti um Svaninn kom það berlega í ljós að hótelið myndi leggja sig fram við að vinna að umhverfismálum af heilum hug. Mikil vakning hefur átt sér stað meðal starfsmanna í aðdraganda vottunarinnar og augljóst er að menn hafa lagt sig alla fram við að ná vel utan um umhverfisstarfið og koma með frjóar hugmyndir að lausnum. Meðal þess sem áunnist hefur hjá Grand Hótel Reykjavík er að það er komin umfangsmikil úrgangsflokkun á hótelinu í heild, búið er að gjörbreyta efnanotkun í þvottahúsi hótelsins og fylgst er náið með innkaupum svo að tryggt sé að kröfur Svansins séu uppfylltar. Grand Hótel Reykjavík mun einnig vinna frumkvöðlastarf við það að skipta út ljósaperum fyrir LED perur á öllu hótelinu í áföngum og mun þegar fram líða stundir bjóða upp á umfangsmikið úrval lífrænna matvæla á morgunverðarhlaðborði sínu en hlaðborðið í heild sinni verður vottað af Tún.
Grand Hótel Reykjavík er fimmti leyfishafinn í flokki hótela og farfuglaheimila á Íslandi en alls eru nú 19 íslensk fyrirtæki komin með Svaninn. Sífellt aukinn áhugi er á Svansvottun fyrirtækja og hafa þónokkur fyrirtæki sótt um vottunina til Umhverfisstofnunar það sem af er þessu ári. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.