Grunnur að sterkari ferðaþjónustu í Evrópu
Á dögunum skrifuðu framkvæmdastjórn ESB (European Commision) og Evrópska ferðamálaráðið (ETC) undir sameiginlega yfirlýsingu um ferðamál.
Henni er ætlað er vera grunnur að samstarfi þessara stofnana í að styrkja ímynd Evrópu sem leiðandi áfangastaðar ferðamanna í heiminum og styrkja innviði greinarinnar. Í yfirlýsingunni er kveðið á um sex meginþætti sem sem samstarfið byggir á, m.a. kynningu á Evrópu á fjærmörkuðum þar sem visiteurope.com-vefurinn er í lykilhlutverki, en ekki eru síðir mikilvægir þættir er lúta að uppbyggingar- og þróunarstarfi innan álfunnar og ætlað er að styrkja atvinnugreinina.
Ferðamálastofa hefur verið aðili að Evrópska ferðamálaráðinu fyrir hönd Íslands um ára bil en í þessum rúmlega hálfrar alda gömlu samtökum eru nú 35 Evrópuríki. Höfuðstöðvar ETC eru í Brussel en markmið samtakanna er að markaðssetja Evrópu á fjærmörkuðum sem áfangastað ferðafólks, standa fyrir könnunum og rannsóknum og deila þekkingu og góðum starfsháttum. Þótt Evrópska ferðamálaráðið sé þannig ekki hluti af Evrópusambandi hefur ESB stutt við starf samtakanna með ýmsum hætti í gegnum árin og undirstrikar yfirlýsingin nú mikilvægi ferðaþjónustunnar í augum ESB, bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti.