Guðrún Þóra Gunnarsdóttir nýr forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála frá 15. maí næstkomandi.
Guðrún Þóra hefur aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar á ferðamálum undanfarin 20 ár. Hún er með meistaragráðu (M.B.A.) í stjórnun ferðaþjónustu frá University of Guelph, Ontario í Kanada og meistaragráðu frá University of Oregon, USA í samanburðarbókmenntum. Hún leiddi uppbyggingu ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og var deildarstjóri þar í 13 ár. Hún hefur síðustu 7 árin gegnt starfi lektors við sömu deild. Guðrún Þóra sat sex ár í Vísinda- og tækniráði og var um árabil fulltrúi Íslands í Norrænu Atlantshafsnefndinni (NORA). Guðrún Þóra mun sinna starfi forstöðumanns í fullu starfi frá 15. maí næstkomandi en í hlutastarfi þangað til.
Fráfarandi forstöðumaður, Kristín Sóley Björnsdóttir, mun sinna starfinu til 1.apríl og í kjölfarið taka við starfi kynningarstjóra hjá Menningarfélagi Akureyrar.