Gullverðlaun MK-nema í Evrópukeppni hótel- og ferðamálaskóla
Nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi náðu frábærum árangri í árlegri nemakeppni AEHT (Evrópusamtaka hótel og ferðamálaskóla) á dögunum. Komu þeir heim með gullverðlaun í ferðafræðum.
Keppnin var haldin í ferðamannabænum Jesolo nálægt Feneyjum. Um er að ræða liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum þeirra í námi. Að þessu sinni var keppt í kökugerð, gestamóttöku, framreiðslu, barþjónustu, ferðafræðum, matreiðslu, stjórnun og flamberingu.
Tillögur til úrbóta í markaðssetningu
Tinna Hrund Gunnarsdóttir, nemi á ferðalínu MK, tók þátt í keppni í ferðafræðum ásamt Melanie frá Hollandi og Jenny frá Svíþjóð. Verkefnið að þessu sinni var þrískipt. Nemendur byrjuðu á að taka eintaklingspróf og eftir að skipt hafði verið í lið fengu þeir 5 klukkutíma til að rannsaka ferðaþjónustumöguleika Jesolo með tilliti til styrkleika, veikleika, ógnana og tækifæra. Þau áttu að koma með tillögur til úrbóta og hvernig markaðssetja mætti staðinn betur. Nemendur áttu að skila inn skýrslu og fengu síðan 3 klukkutíma til að undirbúa kynningu á verkefni sínu sem flutt var frammi fyrir áhorfendum og dómnefnd. Hlutu þau sem fyrr segir gullverðlaun fyrir.
Aron Egilsson, bakaranemi, keppti í eftirréttagerð ásamt Effer frá Tyrklandi og Mauro frá Ítalíu. Verkefni þeirra var að útbúa þrjár tegundir af eftirréttum og skrautstykki úr marsipani eða súkkulaði.
Góður árangur MK á liðnum árunm
Evrópusamtök hótel og ferðamálaskóla voru stofnuð árið 1988 og voru aðilar þá samtals 24 skólar í 16 Evrópulöndum. Samtökin hafa vaxið jafnt og þétt og nú eru á fjórða hundrað skólar frá 39 löndum í samtökunum. Skiptast löndin á um að halda keppnina og ráðstefnu sem fram fer samhliða. MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með einstökum árangri sem tekinn er saman í eftirfarandi töflu:
1998 |
Faro, Portúgal |
1. sæti fyrir eftirrétt |
1999 |
Diekirch, Lúxemborg |
2. sæti í ferðafræðum |
2001 |
Linz, Austurríki |
1. sæti fyrir eftirrétt |
2002 |
San Remo, Ítalíu |
|
2003 |
Kaupmannahöfn |
1. sæti fyrir eftirrétt |
2004 |
Bled, Slóveníu |
1. sæti í ferðafræðum 2. sæti fyrir eftirrétt |
2005 |
Antalya, Tyrklandi |
1. sæti í ferðafræðum |
2006 |
Killarney, Írlandi |
1. sæti í ferðafræðum 1. sæti í kökugerð |
2007 |
Jesolo Lido, Ítalíu |
1. sæti í ferðafræðum |
Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri í bakstri og Ásdís Ó. Vatnsdal, enskukennari hafa lengst af séð um að þjálfa og undirbúa nemendurna fyrir AEHT keppnirnar. Einnig hafa þau setið í dómnefnd nokkrum sinnum. Helene H. Pedersen, fagstjóri ferðagreina í MK, er fulltrúi Íslands í framkvæmdaráði AEHT og situr alla fundi þess sem og aðalfund samtakanna.
Mynd: Tinna Hrund og Aron.