Fara í efni

Hagvöxtur á heimaslóð á Vestfjörðum

Dynjandi
Dynjandi

Í haust hefst á Vestfjörðum þróunarverkefnið Hagvöxtur á heimaslóð. Það er ætlað stjórnendum ferðaþjónustufyrirtækja og er markmiðið að aðstoða þá við að innleiða skipulögð og árangursrík vinnubrögð við markaðssetningu, stjórnun og vöruþróun. Jafnframt að nýta betur þau tækifæri sem fyrir hendi eru á hverju svæði.

Verkefnið var fyrst reynt síðastliðinn vetur með ferðaþjónustufyrirtækjum á Vesturlandi. Útflutningsráð stendur að verkefninu í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru nýsköpunarmiðstöð, LandsMennt, Mími-símenntun, Ferðamálasetur Íslands og Byggðastofnun.

Verkefnið hefst í október og stendur til mánaðamótanna janúar/febrúar. Haldnir verða fjórir tveggja daga vinnufundir þar sem áherslan verður lögð á vöruþróun, markaðssetningu og klasamyndun. Verkefnið á Vesturlandi skilaði mjög góðum árangri og er þess vænst að forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja á Vestfjörðum sjái sér einnig hag í því að taka þátt.?

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Svansson, verkefnisstjóri hjá Útflutningsráði, í síma 511 4000 eða með tölvupósti, gudjon@utflutningsrad.is.