Handbók um aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum í vinnslu
Nú er í vinnslu handbók fyrir ferðaþjónustuaðila ríkja í Norður-Atlantshafi. Markmiðið er að bæta aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum. Upphaf málsins má rekja til skýrslunnar Aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum sem Norm ráðgjöf vann fyrir Ferðamálastofu fyrr á árinu.
Þrjú ráðuneyti styrkja verkið
Aðalstyrktaraðili verkefnisins er NORA, samstarfsvettvangur landa í Norður-Atlantshafi, en fjölmargir aðilar koma að verkefninu, þ.á.m. Ferðamálastofa, sem styrkir verkefnið um 1 milljón króna. Nú í vikunni tilkynntu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðuneytin myndu styrkja verkefnið um 4 milljónir króna.
Málið á sér sem fyrr segir aðdraganda í umræddri skýrslu sem unnin var fyrir Ferðamálastofu. Stofnunin hefur einnig átt aðkomu að því úr fleiri áttum en sótt var um til NORA í framhaldi verkefni sem unnið var í samvinnu við NATA, samstarfsvettvang Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála.
Fyrsti hluti tilbúinn í sumar
Gert er ráð fyrir að fyrsti hluti handbókar verði tilbúinn í júlí 2016. Þar verði tekið á innisvæðum, bókunarþjónustu o.fl. Síðan er gert ráð fyrir að sækja um að nýju fyrir tímabilið 2016-17, en þá verður einblínt á kynningu á handbókinni og jafnframt verða þar útisvæði tekin fyrir. Í umsókninni er einnig gert ráð fyrir að sótt verði um styrk fyrir tímabilið 2017-2018 og þá er stefnan að ljúka verkefninu og m.a. að koma upp vefsíðu með ítarlegum upplýsingum um aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum á Vestur-Norðurlöndum.