Hjörleifur Finnsson ráðinn í starf sérfræðings
Ákveðið hefur verið að ráða Hjörleif Finnsson í starf sérfræðings hjá Ferðamálastofu sem auglýst var í nóvember síðastliðnum. Margar góðar umsóknir bárust um starfið.
Hjörleifur Finnsson er með BA í heimspeki og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann hefur lokið gönguleiðsögunámi við Leiðsöguskóla Íslands og er m.a. með landvarðaréttindi, kennararéttindi í fjallamennsku og hefur lokið námskeiði í þjóðgarðastjórnun frá Bandaríkjunum.
Hjörleifur hefur undanfarin átta ár unnið sem þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem hann hefur haft m.a. umsjón með daglegum rekstri, sinnt mannauðsmálum, samskiptum við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila, stefnumótun, áætlanagerð og eftirliti með fjárreiðum og haft umsjón með fræðslu-, öryggis- og gæðamálum fyrir allan þjóðgarðinn. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum ásamt því að vera leiðsögumaður í ferðum á vegum fyrirtækisins. Einnig hefur hann sinnt kennslu tengda útivist og leiðsögn m.a. hjá Björgunarskóla Landsbjargar, Leiðsöguskólanum og Háskólanum á Hólum.