Hótel Varmaland hlýtur gæða- og umhverfisvottun Vakans og fjögurra stjörnu flokkun
Hótel Varmaland ásamt veitingastaðnum Calor hlaut nýverið gæðavottun Vakans og bronsmerki í umhverfishluta.
Hótel Varmaland er vottað sem fjögurra stjörnu hótel samkvæmt gæðaviðmiðum Vakans en það er eina viðurkennda hótelflokkunin hérlendis. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á viðmiðum Hotelstars sem samtals tuttugu og eitt Evrópuland vinnur eftir.
Tryggja að gestir upplifi einstaka dvöl
„Á Hótel Varmalandi leggjum við mikla áherslu á umhverfisábyrgð og sjálfbærni, en á sama tíma er upplifun gesta okkar ávallt í fyrsta sæti. Við vinnum markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi okkar og tryggja að gestir upplifi einstaka dvöl í sátt við náttúruna“ segir Herborg Svana Hjelm hótelstjóri.
„Við erum meðvituð um að sífellt meiri krafa er gerð af neytendum um umhverfisábyrgð og sjálfbærni. Því leggjum við mikla áherslu á þessa málaflokka í okkar starfsemi, án þess að fórna gæðum eða þægindum í þjónustu við gesti okkar“ segir hótelstjórinn enfremur.
Ferðamálastofa óskar forsvarsmönnum og starfsfólki innilega til hamingju með frábæran árangur.