Hugmyndafræði All Senses hlaut Frumkvöðlaverðlaun Vesturlands
Frumkvöðlaverðlaun Vesturlands voru afhent í annað sinn á dögunum. Í ár var það hugmyndafræði All Senses hópsins á Vesturlandi sem hlaut þau. Það eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sem veita verðlaunin. Frá þessu er greint á fréttavef Skessuhorns.
All Senses er svokallaður klasahópur ferðaþjónustuaðila sem byggir á þeirri hugmyndifræði að samvinna sé vel framkvæmanleg í samkeppni. Það var Sigríður Finsen, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem tilkynnti um úrslitin. Hún sagði í ræðu sinni að hugmyndafræði All Senses Group væri merki um samvinnu grasrótarinnar sem með góðu skipulagi og stýringu virkaði vel.
Sérstök dómnefnd fór yfir þær tilnefningar sem bárust, en að þessu sinni voru þær 20 eða helmingi fleiri en á síðasta ári. Það sem einkum er horft til þegar valið fer fram er nýnæmi í framkvæmdum, atvinnulífi eða félagslífi. Hversu mikið framfaraskref verkefnið er fyrir landshlutann og hversu mikið áræði og fyrirhyggju þurfi til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Mynd: All Senses hópurinn.