Ísland áberandi í Bretlandi
Veruleg fjölgun hefur orðið á fyrirspurnum sem Ferðamálaráði berast með tölvupósti frá Bretlandi. Lætur nærri að aukningin nú í janúar sé um 100% miðað við sama tíma í fyrra.
Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands á Bretlandsmarkaði, segir að fjölgun fyrirspurna geti átt sér nokkrar skýringar "Í fyrsta lagi varð sú breyting í byrjun janúar 2002 að samningur við Flugleiðir í London um að sinna markaðsmálum fyrir hönd Ferðamálaráðs rann út og starfið færðist yfir til okkar. Núna vísar skrifstofa Flugleiða í London því áfram til okkar og inn á visiticeland.com fyrirspurnum sem Flugleiðir afgreiddu áður. Út frá þessum forsendum er erfitt að meta nákvæmlega um hve mikla aukningu er að ræða."
Nánast daglega fjallað um Ísland
Sigrún segir engu að síður staðreynd að Ísland og Reykjavík séu mjög sýnileg í Bretlandi. "Í fyrra voru Flugleiðir og Ferðamálaráð t.d. í tvígang með plakataherferðir í neðanjarðarlestagöngunum sem skiluðu miklu og í síðustu viku fór af stað 6 vikna plakataherferð. Ísland er mjög áberandi í breskum fjölmiðlum og það birtast umfjöllun um landið í blöðum og tímaritum nánast daglega. Fleiri stórir aðilar auglýsa mikið, svo sem Icelandair Holidays, Arctic Experience og nokkrar aðrar stórar ferðaskrifstofur. Borgarferðirnar eru á þokkalegu verði og mikið um hopp-tilboð sem hvetur fólk til að ferðast til Íslands. Allt skilar þetta árangri og til að mynda hafa Flugleiðir aldrei flutt jafn marga frá Bretlandi til Íslands í desembermánuði og í desember síðastliðnum," segir Sigrún.