Island Pro Travel hlaut Scandinavian Travel Award
Ferðaskrifstofan Island Pro Travel hlaut í gær Skandinavísku ferðaverðlaunin, Scandinavian Travel Award í flokknum ?nýsköpun? (Innovation). Verðlaunin voru afhent í sérstöku hófi í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlin í tengslum við ITB ferðakaupstefnuna sem hófst í gær.
Alls voru sjö íslensk fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna í ár. Island Pro Travel hlaut þau fyrir þá nýjung sem felst í að leigja út báta til sjóstangveiði fyrir ferðafólk. Ferðaskrifstofan starfar í Þýskalandi og Bretlandi og sérhæfir sig í ferðum hingað til lands.
Sem fyrr er Íslensk ferðaþjónusta kynnt með öflugum hætti á ITB. Sýningin er haldin árlega, nú í 42. sinn, og hefur Ferðamálastofa tekið þátt í henni nánast frá upphafi. Að þessu sinni kynna 21 ferðaþjónustufyrirtæki þjónustu sína á íslenska sýningarsvæðinu. Starfsfólk Ferðamálastofu í Frankfurt hefur veg og vanda að undirbúningi fyrir Íslands hönd og skipuleggur þátttökuna. Auk fyrirtækja sem taka þátt sem sýnendur koma einnig þó nokkur fyrirtæki í viðskiptaerindum frá Íslandi. Þátttakendur frá um 180 löndum eru mættir til Berlínar, alls um 10 þúsund sýnendur, og því ljóst að samkeppnin um ná hylli ferðamanna er hörð. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, hafa verkföll opinberra starfsmanna sett strik í reikninginn varðandi samgöngur í Þýskalandi. Þannig hafa ekki allir getað komist á milli staða eins og þeir ætluðu og hafa sýnendur á ITB fundið fyrir því í minni aðsókn.
Mynd: Frá ITB í fyrra.