Íslandsbæklingurinn 2006 að koma úr prentun
Vinna við Íslandsbækling Ferðamálaráðs fyrir árið 2006 er nú á lokastigi. Verður honum dreift á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem hefst í Kaupmannahöfn á morgun.
Íslandsbæklingurinn er mikilvægur liður í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hann er sem fyrr gefinn út á 10 tungumálum, þ.e. ensku, dönsku, sænsku, norsku, finnsku, hollensku, ítölsku og spænsku, auk sérútgáfu fyrir þýskumælandi lönd, Frakkland og Norður-Ameríku. Upplag bæklingsins er 500 þúsund eintök. Skrifstofur FMR erlendis, sem og ferðaheildsalar í viðkomandi löndum, annast dreifingu bæklingsins, auk þess sem hann er kynntur á ferðasýningum víðsvegar um heim og sendur til íslenskra sendiráða og ræðismanna. Einnig er hægt að nálgast bæklinginn í PDF-formi á landkynningarvef Ferðamálaráðs www.visiticeland.com ásamt því sem fólk erlendis getur þar pantað hann í prentaðri útgáfu sér að kostnaðarlausu.
Leitað er eftir þátttöku aðila í ferðaþjónustu í kostnaði við gerð bæklingsins og aftast í honum er að finna upplýsingasíður þar sem þeim gefst kostur á að fá birtar upplýsingar um fyrirtæki sitt gegn gjaldi.
Skoða Íslandsbækling 2006 (PDF 5 MB)