Fara í efni

Íslandskynning í Skotlandi annað árið í röð

Skotlandskynning1
Skotlandskynning1

Nýlokið er Íslandsviku í Glasgow með þátttöku Ferðamálaráðs Íslands og er þetta annað árið sem slíkur viðburður er haldinn. Kynningin var einstaklega vel heppnuð í fyrra og því þótti ástæða til að endurtaka leikinn nú í ár. Icelandair UK bar hitann og þungann af skipulagningunni, enda hugmyndin þeirra í upphafi.

Eflir og styrkir tengsl
Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands á Bretlandsmarkaði, segir dagskrána hafa mælst vel fyrir. "Af sérstökum viðburðum má nefna að 25. október var morgunverður með pressunni. Mætingin var nokkuð góð og skilaði sér ágætlega í blöðunum daginn eftir. Vél sem framleiddi gerfisnjó var í gangi fyrir framan veitingastaðinn og skapaði sérstaka stemmningu. Daginn eftir var haldið "gala kvöld" fyrir þátttakendur Íslansdsvikunnar og starfsfólk ferðaskrifstofa í Skotlandi, þar sem um það bil 280 manns mættu. Kynningin var í formi sjónvapsspjallþáttar þar sem sölustjóri Icelandair í Glasgow, David Sanderson, var þáttastjórnandinn og íslensku þátttakendurnir voru teknir "í sófann". Inná milli voru auglýsingahlé þar sem fyrirtæki kynntu sína vöru. Uppátækið vakti mikla kátínu og gekk vel í alla staði. Þann 27. október lauk okkar hluta með hádegisverði ásamt lykilfólki og stjórnendum 28 ferðaskrifstofa. Þessi uppákoma var haldin í Mar Hall fallegum herragarði u.þ.b. 20 mínútna akstur frá Gl
asgow. Allt gekk þetta mjög vel en viðburðir sem þessir þjóna því mikilvæga hlutverki að mynda og styrkja tengsl á milli aðila," segir Sigrún.

Íslensk menning og matur
Hin opinbera kynning fyrir skoskan almenning var einnig sérlega fjölbreytt. Í kynningu sem send var út í Bretlandi fyrir nokkru má m.a. lesa: "Dálítið af Íslandi, "heitasta" (coolest place) landi í Evrópu, mun verða í sviðsljósinu í Skotlandi í næstu viku. Gagnkvæmar mætur þjóðanna hvor á annarri gera heimsóknir Skota til Íslands "eins og þeir séu heima hjá sér og öfugt". Íslenskt tónlistarlíf, menning og hinn frábæri íslenski matur vekur hvarvetna mikila athygli og eiga Skotar eftir að heyra og sjá mikið meira um það efni í vikunni."

Áhersla var lögð á íslenska menningu og m.a. sýndu fjórir íslenskir listamenn list sína í Centre for Contemporary arts. Sýningin hófst 8. október og stendur í sex vikur. Þá var hljómsveitin SKE með tónleika. Siggi Hall eldaði úr íslensku hráefni á La Bonne Auberge veitingastaðnum ásamt yfirkokki staðarins og vakti verðskuldaða athygli. Dagana 15.-21. október gafst þeim sem voru að versla í Buchanan Galleries kostur á að vinna lúxusferð til Íslands fyrir tvo og er þá bara fátt eitt nefnt.

Sem fyrr segir voru það Icelandair UK sem sáu um allt skipulag en aðrir sem tóku þátt voru Höfuðborgarstofa, Bláa Lónið, Icelandair hotels, Radisson SAS Saga og Island, Reykjavik Excursions, Hertz UK og nokkur fyrirtæki frá áfangastöðum þeirra vestanhafs, auk Ferðamálaráðs Íslands.


Íslensku þátttakendurnir fyrir utan Mar Hall.


Morgunverður með fjölmiðlum var haldinn á La Bonne Auberge
og snjóvél jók enn á stemmninguna.