Íslandstjaldið við Ferðamálastofu setur svip á Menningarnótt
Ferðamálastofa og markaðsstofur landshlutanna taka nú þátt í Menningarnótt í fyrsta sinn og það af miklum krafti. Íslandstjaldið verður einn af meginpunktum hátíðarinnar og þar mun setning Menningarnætur fara fram. Íslandstjaldið verður staðsett á planinu á milli Ferðamálastofu við Geirsgötu 9 (sem margir þekkja sem Hafnarbúðir) og gömlu sægrænu verbúðanna sem nú hýsa fjölbreytta starfsemi.
Fjölbreytt skemmtidagskrá landshlutanna
Í Íslandstjaldinu kynna markaðsstofur landshlutana haust- og vetrardagskrána á sínu svæði, bjóða upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og sýna ýmislegt áhugavert eins og handverk og listmuni, ullarfatnað, ljósmyndir, matvæli og snjóbyssu, svo nokkuð sé nefnt.
Setningarathöfn hefst kl. 13 og mun borgarstjórinn Jón Gnarr setja hátíðina. Höfuðborgarstofa ríður síðan á vaðið, þá Suðurnes, Suðurland, Austurland, Norðurland, Vestfirðir og Vesturland. Dagskrá hvers landshluta stendur í klukkustund og má með sanni segja að fjölbreytnin sé í fyrirrúmi.
Sjö metra landslagsmálverk
Rúsínan í pylsuendanum er síðan gjörningurinn Ísafold sem er 7 m langt landslagsmálverk unnið af 7 listamönnum víðsvegar af landinu. Vinnan við gjörninginn hefst kl. 13.00 og stendur til kl. 20.00. Gestir og gangandi eru hvattir til að leggja sitt af mörkum við verkið.
- Dagskrá Íslandstjaldsins (PDF)
Heildardagskrá Menningarnætur er að finna á vefnum www.menningarnott.is