Íslendingar hljóta gull- og silfurverðlaun í nemakeppni AEHT
Nemendur af ferðamálabraut og úr Hótel- og veitingaskóla Menntaskólans í Kópavogi komu sáu og sigruðu í nemakeppni í eftirréttagerð og í ferðakynningum í Bled í Slóveníu fyrr í mánuðinum.
Keppnin var haldin í tengslum við aðalfund Evrópusamtaka hótel- og ferðamálaskóla, AEHT, sem stóð yfir í Bled dagana 12. - 17. október sl. Keppnin í ár var liðakeppni og lið íslenska nemandans í ferðakynningum hlaut gullverðlaun og lið íslenska nemandans í eftirréttagerð, silfurverðlaun.
Fulltrúar skólans sem fóru á aðalfundinn voru Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, fagstjóri ferðagreina sem er fulltrúi Íslands í framkvæmdarstjórn AEHT, Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri bakaranáms sem hefur séð um þjálfun bakaranemans og Ásdís Vatnsdal, kennari og verkefnastjóri erlendra samskipta sem fylgdi ferðamálanemanum. Nemendurnir eru Guðrún Birna Brynjarsdóttir, nemi á ferðamálabraut MK og Svanur Már Scheving, bakaranemi í Hótel- og matvælaskóla MK.
Góður árangur Íslands vekur athygli
Í frétt frá Menntaskólanum í Kópavogi kemur fram að AEHT eru stærstu samtök hótel- og ferðamálasamtaka í Evrópu með yfir 300 skólum frá um 35 löndum. Það er því hörð samkeppni í nemakeppnunum. Þetta er sjöunda árið sem íslenskir nemendur frá MK sækja keppni AEHT og sjötta árið sem Íslendingar verma verðlaunasæti. Nemar í bakstri hafa þrisvar áður hneppt 1. verðlaun fyrir eftirrétt, árið 1998, 2001, 2003 og nú 2004. Nemar í ferðafræðum hlutu silfurverðlaun í ferðamálakeppni, árið 1999 og gullverðlaun nú, árið 2004. Árangur Íslendinga vekur umtalsverða athygli á Evrópuvettvangi AEHT. Auk þess að ná svo góðum árangri í nemakeppnunum hafa fulltrúa skólans verið eftirsóttir til starfa á vettvangi framkvæmdarstjórnar samtakanna og sem dómarar í keppnum. Íslendingar eru því svo sannarlega farnir að setja mark sitt á starfsemi AEHT.