Íslenskir dagar í Seattle
Öflug kynning á Íslandi, íslenskum vörum og þjónustu fer fram í Seattle dagana 10.-13. september næstkomandi enda hefur Icelandair nýlega hafið flug þangað. Borgarstjórinn þar mun útnefna dagana ?Iceland Days? í tilefni kynningarinnar.
Átakið er á vegum Iceland Naturally verkefnisins en daglegur rekstur verkefnisins er sem kunnugt er í höndum Ferðamálastofu og Viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í New York. Fjölmörg íslensk fyrirtæki taka beinan þátt í kynningunni, og má þar nefna Icelandair, Icelandic USA, Inc., Reykjavíkurborg, Icelandic Glacial, Reyka Vodka, 66° Norður, Bláa lónið, Útflutningsráð, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Fiskifélag Íslands.
?Mikið starf hefur verið unnið undanfarin ár við að kynna Ísland í Bandaríkjunum og Kanada og við þær aðstæður sem við búum nú við er ærin ástæða til að setja enn aukinn kraft í að kynna þær einstöku vörur og þjónustu sem landið hefur uppá að bjóða,? segir Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, og segir hún sóknarfærin leynast víða í N-Ameríku. Og Katrín bætir við: ?Það hefur til dæmis komið í ljós að stór hluti farþega Icelandair frá Seattle koma hingað til lands sem ferðamenn en fljúga ekki einungis yfir Atlantshafið?
Sjávarútvegur í forgrunni
Seattle-búum gefst kjörið færi á að bragða á íslenskum sjávarafurðum í september þegar Icelandic USA, Inc. stendur fyrir tveggja vikna Íslandskynningu á veitingahúsum Boeing verksmiðjunnar, sem eru 40 talsins og þjóna 25.000 manns á dag. Þá verður Þórarinn Eggertsson frá veitingastaðnum Orange í Reykjavík með kynningu á íslenskri matargerð á hinum þekkta sjávarréttastað Ray''s Boathouse. Hann mun bjóða gestum upp á íslenskar sjávarafurðir, vatn frá Icelandic Glacial, Reyka Vodka og skyr í eftirrétt.
Haldin verður ráðstefna um ábyrgar fiskveiðar í samstarfi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Icelandic USA, Inc., Fiskifélag Íslands og University of Washington Þátttakendur verða Dr. Sigurgeir Þorgeirsson ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Daniel A. Murphy Jr. framkvæmdastjóri hjá Icelandic USA, Inc., og Hlynur Guðjónsson ræðismaður og viðskiptafulltrúi Íslands í Norður Ameríku.
Ferðamennska og listalíf
Ísland nýtur síaukinna vinsælda sem ferðamannastaður en eitt af markmiðum Iceland Naturally er að vekja áhuga Bandaríkjamanna á áfangastaðnum Íslandi. Icelandair stendur fyrir vinnustofu og Íslandskynningu með þátttöku 14 íslenskra fyrirtækja auk nokkurra fyrirtækja frá Bandaríkjunum. Þá heldur Greg Eppich, framkvæmdastjóri Publicis Consultants PR fyrirlestur fyrir íslensku ferðafyrirtækin um fjölmiðlamarkaðinn í Bandaríkjunum.
Ekki er hægt að kynna Ísland án þess að minnast á þá fjölbreyttu listaflóru sem prýðir landið, en sérstök íslensk kvikmyndahátíð verður haldin í The Varsity leikhúsinu, auk þess sem Ólöf Arnalds heldur tónleika á ?The Crocodile?.
Nánari upplýsingar:
Pétur Þ. Óskarsson, formaður Iceland Naturally, sími 863 6075.