Íslenskir fjalleiðsögumenn hlutu starfsmenntaviðurkenningu SAF
Íslenskir fjallaleiðsögumenn hlutu starfsmenntaviðurkenningu Samtaka ferðaþjónustunnar 2010. Hún var afhent í þriðja sinn á Degi menntunar í ferðaþjónustu sem haldin var á Grand Hóteli í gær.
Fram kemur í frétt frá SAF að Íslenskir fjallaleiðsögumenn fá verðlaunin fyrir menntun jökla- og fjallaleiðsögumanna hafa með skýrri sýn lagt áherslu á mikilvægi starfsmenntunar í allri starfsemi sinni með það að markmiði að auka öryggi, starfsánægju, draga úr starfsmannaveltu og síðast en ekki síst til að ná samkeppnisforskoti og auka arðsemi í rekstri fyrirtækisins með aukinni starfsmenntun. www.fjallaleidsogumenn.is
Í rökstuðningi dómnefndar segir að einkum hafi eftirfarandi legið til grundvallar ákvörðunar hennar:
- Markviss starfsmannaþjálfun með það að leiðarljósi að betri þjálfun starfsfólks skili sér í auknu öryggi
- Ótvíræður árangur starfmannaþjálfunar hvað starfsánægju og minni starfsmannaveltu varðar
- Þjálfunarkerfið er aðlaðandi fyrir metnaðarfullt fjallafólk sem sækir í faglega þjálfun og hefur gert alla stjórnun skilvirkari
- Öflugt samstarf við Nýsjálendinga á sviði þjálfunarstarfs þar sem hugað er að öryggismálum og jafnframt tekur þjálfunin einnig til þjónustu- og gæðaþátta.
- Þrepaskipt nám fyrir starfsfólk sem þarf oft að takast á við erfiðar aðstæður
- Jákvætt viðhorf til símenntunar allra starfsmanna með fræðslukvöldum um margvísleg efni
- Þjálfun og öryggismál verða stærri þáttur í markaðsmálum fyrirtækisins og skapa því ákveðið samkeppnisforskoti gegnum markvissa símenntunarstefnu
Í stefnu SAF á sviði fræðslu og menntamála kemur fram að eitt af höfuðmarkmiðum sé að bæta arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og að hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til menntunar, símenntunar og þjálfunar. Dagur menntunar í ferðaþjónustu er liður í ofangreindum markmiðum þ.e. að vekja athygli atvinnurekanda á mikilvægi menntunar, símenntunar og þjálfunar starfsfólks.
Mynd: Frá hægri Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra, Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna, Einar Torfi Finnsson, framleiðslustjóri, Elin Sigurveig Sigurðardóttir og Arnar Jónsson frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, Árni Gunnarsson, formaður SAF og María Guðmundsdóttir, Upplýsinga- og fræðslufulltrúi SAF.