Íslenskt fjörugrjót sent heimsálfa á milli
Ferðamálastofa fær nokkuð reglulega sendingar frá erlendum ferðamönnum sem sótt hafa landið heim og freistast til að taka með sér minjagripi úr náttúrunni. Í flestum tilfellum er um að ræða hraunmola eða fjörugrjót.
Forðast yfirvofandi ógæfu
Þegar heim er komið áttar fólk sig á að slíkt sé ekki leyfilegt og sendir Ferðamálastofu steinana til baka með ósk um að þeim verði skilað til baka á viðkomandi stað. Gjarnan fylgir sögunni að fólk hafi lesið að sérstök ógæfa fylgi því að fjarlægja í heimildarleysi eitthvað úr íslenskri náttúru. Fyrir hefur komið að stofnuninni berist þannig nokkur kíló af grjóti í einni sendingu þótt oftast sé bara um nokkra mola að ræða.
Til Bandaríkjanna og til baka
Ein slík sending barst Ferðamálastofu á dögunum. Ekki kemur fram hvar viðkomandi býr en bréfið var póstlagt í Bandaríkjunum. Með fylgdi þessi fallega mynd af Teton fjallgarðinum í Klettafjöllunum, skammt sunnan við Yellowstone þjóðgarðinn. Því er ljóst að þessir íslensku steinar hafa ferðast býsna langt.
10 þúsund til Landverndar og heitir bót og betrun
Í skilaboðunum kemur fram að bréfritari var í sinni annarri heimsókn til Íslands, greip í ógáti með sér nokkrar steinvölur í Reynisfjöru og óskar eftir að þeim verði skilað aftur í íslenska náttúru. Þá kemur fram að 10 þúsund krónur hafi verið greiddar inn á reikning Landverndar. Jafnframt heitir viðkomandi því að standa sig betur í næstu heimsókn. Af því að dæma hefur ekki verið um síðustu Íslandsheimsóknina að ræða.