ITB tókst vel
Þátttaka Íslands á ITB ferðasýningunni í Berlín tókst með miklum ágætum í ár en sýningunni lauk í gær. Sem fyrr var Íslensk ferðaþjónusta kynnt með öflugum hætti og aldrei hafa fleiri íslensk fyrirtæki tekið þátt eða alls 21.
Að sögn Davíðs Jóhannssonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, óttuðust menn nokkuð að verkföll í Þýskalandi myndu setja strik í reikninginn og draga úr aðsókn. Þau mál leystust þó að hans sögn betur en á horfðist og var mikil umferð alla sýningardagana í bás Íslands. "Mér heyrist bara vera gott hljóð í fólki og margir góðir hlutir að gerast," segir Davíð.
Sýningin er talin stærsta ferðasýning í heimi og skiptist í tvennt. Fyrri þrjá dagana er aðeins opið fyrir fagaðila en síðan fyrir almenning tvo síðustu dagana. Samkeppnin er mikil því í ár tóku þátt um 10.000 sýnendur frá rúmlega 180 löndum og að sjálfsögðu keppist hver og einn við að sýna sitt besta. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, hefur Ísland mörg undanfarin ár verið í samfloti með öllum hinum Norðurlöndunum en það heldur kostnaði niðri auk þess sem Ísland er þar af leiðandi með mun betri staðsetningu en ella væri mögulegt. Þess má geta að komin er dagsetning á ITB 2009 og verður sýningin haldin 11.-15. mars.
Myndirnar hér að neðan voru teknar á ITB um helgina.
|
Sér yfir íslenska básinn og sem sjá má er nóg að gera. |