Katla Travel stofnar fyrirtæki á Íslandi
Katla Travel GmbH, sem undanfarin ár hefur verið stór aðili í sölu Íslandsferða í Þýskalandi og Austurríki, hefur stofnað fyrirtæki um starfsemi félagsins á Íslandi. Að því er fram kemur í frétt frá félaginu er ástæðan aukin umsvif á íslenskum ferðamarkaði og hagstætt skattaumhverfi. Katla Travel reiknar með því að farþegar í orlofsferðum til Íslands á vegum fyrirtækisins verði tvöfalt fleiri í sumar en síðastliðið ár.
Katla Travel GmbH var stofnað í Þýskalandi árið 1997 og voru þá gerðir samningar við stórar ferðaskristofur, Troll Tours og Neckermann, um sölu á Íslandsferðum. Fyrirtækið sérhæfir sig í ferðum til Íslands frá þýskumælandi svæðum Evrópu og rekur skrifstofur í Munchen og Reykjavík. Að sögn Péturs Óskarssonar, framkvæmdastjóra Katla Travel felst sérstaða fyrirtækisins í tvennu, þekkingu á þýsku markaðsumhverfi og þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu. Hann segir að á síðustu árum hafi farþegum á vegum fyrirtækisins í Íslandsferðum fjölgað mjög en á síðasta ári voru flugsæti 6.700 en verða 16.700 í ár. Mikil fjölgun hafi bæði orðið í skipulögðum hópferðum og einstaklingsferðum, en í ár er von á hátt á fjórða þúsund farþega í hótelferðir miðað við tæplega 2000 í fyrra. Langflestir viðskiptavina Katla Travel eru Þjóðverjar, en einnig nær markaðssvæði fyrirtækisins til Austurríkis.
Katla Travel hefur átt árangursríkt samstarf við Neckermann - sem er vörumerki Thomas Cook ferðaskrifstofunnar og dótturfyrirtæki þess, Troll Tours. Með samstarfinu nýtur Katla Travel hagkvæmni stærðarinnar en Thomas Cook rekur rúmlega sextán þúsund umboðsferðaskriftstofur á þýska markaðnum sem rúmlega sextíu þúsund starfsmenn.
Pétur segir að Katla Travel fari eigin leiðir við flutning gesta til landsins og nýti sér frelsi í þeim efnum til fulls. "Á þróuðum mörkuðum eins og Þýskalandi eru það fyrst og fremst þýsk leiguflugfélög sem koma með ferðamenn í orlofsferðir til landsins", segir Pétur og nefnir að hjá Aero Lloyd 2002 hafi tæplega 90% farþeganna til Íslands verið erlendir ferðamenn á leið í orlofsferðir.
Pétur segir að ætla megi að markaðshlutdeild þýsku flugfélaganna árið 2003 í flutningi þýskra og austurrískra ferðamanna með beinu flugi til landsins sé nálægt 60% á ársgrundvelli og fari vaxandi. "Ferðir flugfélaganna á þessu ári spanna fimm mánaða tímabil frá 1. maí til septemberloka", segir Pétur. "Og mér finnst rétt að minna á að þýsku leiguflugfélögin flytja þá ferðamenn til landsins sem hvað dýrmætastir eru fyrir ferðaþjónustuna í heild og sérstaklega fyrir landsbyggðina. Þjóðverjar og Austurríkismenn eru meðal fimm efstu þjóða þegar skoðað er hvaða ferðamenn ferðast mest um landið. Þeir dvelja líka að meðaltali lengst á Íslandi, aðallega á fimm dýrustu mánuðum ársins, og gefa því mest af sér til greinarinnar og í þjóðarbúið".