Of mörg dæmi um mál á jaðrinum
Fyrstu niðurstöður rannsóknar á staðsetningu og aðstæðum erlends starfsfólks í íslenskri ferðaþjónustu voru kynntar í dag á fundi sem Ferðamálastofa og Íslenski Ferðaklasinn stóðu fyrir. Þær benda til að á ýmsum sviðum sé svigrúm til úrbóta og beinist það bæði að fyrirtækjum og stjórnvöldum.
Byggt á reynslu staðbundinna verkalýðsfélaga
Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að greina aukna aðkomu erlends starfsfólks í greininni og fá yfirlit yfir hvað má betur fara í starfsumhverfi erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Í kynningunni var aðallega byggt á reynslu staðbundinna verkalýðsfélaga af vinnustaðaeftirliti og þjónustu við erlenda félagsmenn ásamt greiningu á gögnum frá Hagstofu Íslands um vinnuafl í ferðaþjónustu.
Mikill munur á landshlutum
Helstu niðurstöður voru þær að árið 2017 var hæst hlutfall erlendra launþega í ferðaþjónustu á Suðurlandi, 41%, en lægst á Norðurlandi-eystra, 15%, en í þessum landshlutum störfuðu álíka margir í ferðaþjónustu. Hjá verkalýðsfélögum á Reykjanesi og á Suðurlandi voru mál tengd erlendu starfsfólki í ferðaþjónustu orðin fyrirferðamikil og margt sem má betur fara bæði hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum.
Skortur á fagmennsku í starfsmananhaldi
Að mati viðmælenda voru of mörg dæmi um að í mikilli fjölgun fyrirtækja í ferðaþjónustu á síðustu árum hafi starfsmannamál verið á jaðrinum hjá fyrirtækjum og oft skorti fagmennsku í starfsmannahaldi. Þar að auki var bent á að í allri umræðu í dag um sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu skorti meiri dýpt í umfjöllun um réttindi launþega á vinnumarkaði. Komið var inn á hlutverk gæðakerfa í þeim efnum.
Háðir vinnuveitendum sínum
Viðkvæm staða erlendra starfsmanna kemur m.a. fram í því að þeir leita oftast ekki til verkalýðsfélaganna um aðstoð við leiðréttingu á launum fyrr en þeir hætta störfum. Ein ástæða er að þeir eru oft háðir vinnuveitanda um húsnæði, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Gagnrýni beindist ekki síst að stjórnvöldum, fyrir skort á eftirliti með framfylgd laga og aðstoð við erlent starfsfólk sem brotið var á.
Um rannsókn og rannsakendur
Sumarið 2018 hófu Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála [RMF] og Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í landfræði við Háskóla Íslands, vinnu við rannsókn sem ætlað er að gefa dýpri innsýn í kjör og aðstæður erlends stafsfólks í greinum tengdum ferðaþjónustu á Íslandi. Þær eru hluti af nýstofnuðum rannsóknarhópi um vinnuafl í ferðaþjónustu, sem leiddur er af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Auk íslenskra fræðimanna í rannsóknarhópnum eru rannsakendur frá öðrum Norðurlöndum og Bretlandi.
Hvati rannsóknar í íslensku samhengi er mikill vöxtur í störfum tengdum ferðaþjónustu á síðustu árum og vaxandi hlutdeild erlendra ríkisborgara í þeim störfum. Í rannsókninni eru bornar saman áskoranir og aðstæður eftir svæðum, sem hafa mismunandi ásókn ferðamanna og árstíðasveiflu. Nánar tiltekið er sjónum beint að þróun á Suðurlandi, í Reykjanesbæ og á Vestfjörðum.
Efni og upptökur
Þá má nálgast efni og upptökur frá fundinum í dag hér að neðan.
Næstu kynningar
Fundurinn í dag var annar í röð hádegiskynninga sem Ferðamálstofa mun standa fyrir í vetur í samvinnu við Íslenska Ferðaklasann. Næsta kynning verður 22.febrúar þegar kynntar verða niðurstöður könnunar á vegum Ferðamálastofu á viðhorfi heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku í Reykjanesbæ, Stykkishólmi, Húsavík og á Egilsstöðum.