Fara í efni

Könnun meðal ferðamanna á Vestfjörðum

Vestfirðir
Vestfirðir

Síðastliðinn föstudag voru kynnar niðurstöður könnunar sem gerð var meðal ferðamanna á Vestfjörðum sumarið 2008. Könnunin gefur mynd af því hvernig ferðamenn koma til Vestfjarða, hvar þeir eru líklegir til að leita sér upplýsinga og hverju þeir hafa helst áhuga á að kynnast eða upplifa á ferð sinni um Vestfirði. Þá er leitast við að skýra hvaða þættir hafa helst áhrif á ánægju ferðamannanna.

Könnunin var unnin í samstarfi Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands og Markaðsstofu Vestfjarða og var styrkt af Vaxtasamningi Vestfjarða. Starfsmenn setursins fóru víða um Vestfirði og lögðu fyrir ferðamenn spurningalista þar sem meðal annars var spurt um ástæður komu, upplýsingaöflun, nýtingu og ánægju með þjónustu á Vestfjörðum sem og ánægju með ferðina í heild.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að náttúruferðamenn séu afgerandi hópur á Vestfjörðum og að þeir ferðamenn sem þangað  koma séu almennt ánægðir með ferðina. Það má þó lengi bæta og gefa niðurstöður könnunarinnar vísbendingar um að enn megi bæta aðgengi ferðamanna að upplýsingum og afþreyingarmöguleika á svæðinu.

Skoða skýrsluna - Ferðamenn á Vestfjörðum sumarið 2008