Kortlagning á auðlindum ferðaþjónustunnar á fullum skriði
Nú er í fullum gangi verkefni um kortlagningu á auðlindum ferðaþjónustunnar sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn á landsvísu. Lokaafurð verkefnisins er gagnagrunnur sem nýst getur hagsmunaaðilum við þróun og uppbyggingu í greininni.
Metnaðarfullt verkefni
Ferðamálastofa samdi við Alta ehf. um að vinna verkið á grundvelli útboðs sem efnt var til. Um er að ræða viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem nýtast mun þeim sem að íslenskri ferðaþjónustu koma, bæði opinberum stofnunum sem og einkaaðilum.
Heimafólk fengið til samráðs
Til að grunnurinn verði skilvirkur og gagnsemi hans sem mest er nauðsynlegt að þær upplýsingar sem í hann eru skráðar séu réttar. Því var leitað til sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila um tilnefningu samráðsfulltrúa til að koma að skráningunni. Hlutverk þeirra er að fara yfir skráningu staða í hverju sveitarfélagi/ landssvæði fyrir sig og meta þá m.a. út frá aðgengi og aðdráttarafli.
Einfalt vefviðmót
Matið fer fram í gegnum vefviðmót sem er mjög einfalt í notkun. Mat samráðfulltrúa er svo lagt til grundvallar við áframhaldandi vinnu verkefnisins. Til að gefa hugmynd um umfangið þá eru samráðfulltrúar tæplega 200 talsins og vert að færa þeim þakkir fyrir að taka þátt í verkefninu.
Metur staði á sínu svæði
Samráðsfulltrúar hafa nú fengið aðgang að vefviðmótinu þar sem hver og einn hefur yfirlit um þá staði sem honum hefur verið falið að meta. Er þess vænst að viðbrögð verði góð en reiknað er með að fyrsta áfanga verkefnisins verði lokið í nóvember.