Fara í efni

Landstólpinn ? árleg viðurkenning Byggðastofnunar

Byggðastofnun
Byggðastofnun

Byggðastofnun hefur ákveðið að veita árlega viðurkenningu á ársfundi sínum og verður það gert í fyrsta sinn á ársfundinum þann 25. maí n.k. sem haldinn verður í Vestmannaeyjum. Henni hefur verið valið heitið „Landstólpinn. Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar“. Það er von okkar að slíkur viðburður gefi jákvæða mynd af landsbyggðinni og af starfi stofnunarinnar, segir í frétt frá Byggðastofnun. Viðurkenningin er hvatning og einskonar bjartsýnisverðlaun, því hugmynd að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.
 
Nokkur svipuð verkefni eru í gangi og sum hver hafa fastan sess. Sum þeirra einskorðast við ákveðin málaflokk eða þátttakendur. Samfélagsviðurkenningin er hins vegar þvert á málaflokka og opin öllum.
 
Viðurkenninguna má veita einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélagi. Það gæti t.d. verið eitthvert tiltekið verkefni eða starfsemi, umfjöllun eða annað og gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags
 
Viðurkenningin er auglýst í blöðum og á heimasíðu stofnunarinnar og hver sem er getur komið með ábendingu, sbr. val á manni/konu ársins. Dómnefnd velur síðan úr.
 
Hafa má í huga við ábendinguna hvort viðkomandi hafi:
-          gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði
-          aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
-          orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til
-          dregið að gesti með verkefni eða umfjöllun sinni
 
Ekki er nauðsynlegt að öllum þessum atriðum sé fylgt eftir, heldur séu þau höfð til hliðsjónar.
 
Viðurkenningin verður listmunur hannaður af lista- eða handverksfólki á því svæði þar sem fundurinn er haldinn. Þannig verður listmunurinn í ár hannaður af Vestmannaeyingi.
 
Það er von okkar og ósk að þið takið þátt í valinu með því að senda okkur ábendingar fyrir 16. maí n.k. Það má gera annað hvort gegnum heimasíðuna okkar, www.byggdastofnun.is   eða með því að senda póst á netfangið sigga@byggdastofnun.is
 
Nánari upplýsingar gefur Sigríður K. Þorgrímsdóttir, s. 455 5400