Landupplýsingar birtar á einni vefsjá
Ferðamálastofa býr yfir ýmsum staðtengdum upplýsingum, eða landupplýsingum, sem ætlað er að styðja við skipulagningu, stefnumótun og vöruþróun í ferðamálum. Nú er komin í loftið einföld vefsjá þar sem skoða má öll þessi gögn saman á einu korti.
Hvaða gögn eru þetta?
Fyrst má nefna gögn sem söfnuðust í verkefninu „Kortlagning auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu“ þar sem með aðstoð heimafólks var metið mögulegt aðdráttarafl og fleiri þættir á áhugaverðum viðkomustöðum á þeirra svæði. Aukaafurð þess verkefnis var síðan gagnasafn um þá staði sem nefndir eru í Íslendingasögunum. Þá má nefna safn sem sýnir upptökustaði þekktra erlendra kvikmynda og þátta hérlendis og loks er það þjónustugrunnur Ferðamálastofu með upplýsingum um rúmlega þrjúþúsund ferðaþjónustuaðila um allt land.
Sem fyrr var það ráðgjafa og verkfræðifyrirtækið Alta sem sá um tæknilega útfærslu.
Aðgengi og niðurhal
Markmið Ferðamálastofu er að aðgengi að gögnum sé sem einfaldast til að þau nýtist sem flestum. Þannig eru landupplýsingar stofnunarinnar hýstar og þeim miðlað með svonefndum Geoserver, sem sérhæfur til þessara hluta. Með því móti er einfalt fyrir þá aðila sem nota landupplýsingakerfi að tengjast gagnaveitunni beint og fá allar uppfærslur sem gerðar eru jafn óðum. Jafnframt er með einföldum hætti hægt að hala gögnunum niður í algengustu gagnasniðum fyrir landupplýsingar.