Leiðsögunám boðið á Akureyri næsta haust
30.04.2013
Við Goðafoss.
Mikil eftirspurn er eftir menntuðu leiðsögufólki í kjölfar fjölgunar ferðamanna til landsins. Næsta haust verður leiðsögunám í boði hjá Símenntun Háskólans á Akureyri, í samstarfi við Leiðsöguskólann í MK, Samtök ferðaþjónustunnar og SBA Norðurleið.
Fjölbreytt og hagnýtt nám
Leiðsögunámið er víðfeðmt og fjölbreytt en markmið þess er að búa nemendur undir það að fylgja ferðamönnum um landið. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi og íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Íslandi, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni.
Inntökuskilyrði
- Stúdentspróf eða sambærilegt nám
- Mjög gott vald á einu erlendu tungumáli, auk íslensku
- Nemandi þarf að standast munnlegt inntökupróf á því tungumáli sem hann hyggst leiðsegja á
Skipulag
- Námið er 37 einingar og skiptist í kjarnagreinar á haustönn 17 ein. og almenna leiðsögn á vorönn 20 ein.
- Kennt er þrjú kvöld í viku, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga kl. 17:00-21:00 og farnar 5-7 vettvangs- og æfingaferðir á önn
- Kennsla hefst um miðjan sept. að undangengnu inntökuprófi í júní og útskrifast nemendur að loknum 37 einingum í lok maí 2014
Skráningarfrestur er til 31. maí 2013