Lokaverkefnisverðlaun afhent í annað sinn
Á ferðamálaráðstefnunni í gær voru lokaverkefnisverðlaun Ferðamálaseturs Íslands afhent. Þau hlaut Ýr Káradóttir fyrir verkefni sitt um gæði gistingar og afhendi Sturla Böðvarsson samgönguráðherra henni verðlaunin.
Verðlaunin voru nú afhent annað árið í röð en þau eru veitt fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Dómnefnd er skipuð er stjórn og forstöðumanni FMSÍ og mat hún átta verkefni skólaársins 2005-2006 afar góð og/eða mjög athyglisverð. B.Sc. ritgerð Ýrar Káradóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands bar yfirskriftina: Gæði í gistingu. Gæðastefnur og aðferðir við mælingar á þjónustugæðum innan valinna hótelkeðja á Íslandi.
Í umsögn dómnefnar um ritgerð Ýrar sagði: Í verkefni sínu fjallaði Ýr Káradóttir um gæðahugtakið, þá sérstaklega með tilliti til þjónustugæða á völdum íslenskum hótelkeðjum. Þannig leitaðist hún við að átta sig á stefnu hótelkeðjanna hvað varðar gæðastjórnun og hvernig henni er fylgt eftir í daglegum rekstri.
Með viðtölum komst Ýr að því hvernig yfir- og milli stjórnendur hótelkeðjanna móta stefnu í þjónustugæðum fyrirtækjanna. Í ljós kemur að gæðastefna hótela er afar misjöfn milli fyrirtækja og hefur stærð þeirra þar afgerandi áhrif.
Helsta niðurstaða Ýrar er að eftirfylgni og mat hótelkeðjanna á eigin þjónustugæðum er töluvert á eftir því sem gerist í fræðilegri umræðu um gæðahugtakið. Hugmyndir stjórnenda um gæði voru einskorðuð við gæði starfsfólks, þjónustu við gesti og almennan aðbúnað. Hinsvegar bendir Ýr á að þjónustugæði eins og þau eru rædd í fræðunum er mun margslungnari en svo. Til að rökstyðja mál sitt beitir hún þremur ólíkum gæðakenningum fræðimanna þar sem áherslan er á starfstengd og tæknileg gæði sem borin eru saman við væntingar og síðar upplifun viðskiptavina.
Dómnefndin telur að þetta verkefni geti nýst hótelum á landinu sem stefna að því að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þannig leggur verkefnið til hvernig þau geta bætt gæði eigin þjónustu í samræmi við það sem er efst á baugi í málefnum ferðaþjónustunnar samanber efni ferðamálaráðstefnu nú.
Önnur verkefni sem metin voru afar góð og/eða mjög athyglisverð voru:
Að þekkja Ísland. B.Sc. ritgerð Sunnu Reynisdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.
Glöggt er gests augað. Samskipti erlendra ferðamanna og Íslendinga á 19. öld. B.Sc. ritgerð Áslaugar Briem frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.
Hverjir eru möguleikar til markaðssetningar útivistar og ævintýraferða á Vestfjörðum? M.S. ritgerð Péturs S. Hilmarssonar frá Viðskipta og hagfræðideild Háskóla Íslands.
Sólskinseyjan Ísland. Viðhorf Íslendinga til kynninga á Íslandi erlendis. B.Sc ritgerð Ástu Sigríðar Skúladóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.
Úttekt á jarðhita í Öxarfirði með tilliti til atvinnusköpunar. B.Sc. ritgerð Hildar Vésteinsdóttur frá Viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri.
Viðhorf nemenda í ferðamálafræðum til námsins. B.Sc. ritgerð Lýdíu Huldar Grímsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Samfélagsleg áhrif viðburðaferðamennsku. B.Sc. ritgerð Selmu Harðardóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.