Lonely Planet mælir með Norðurlandi
Norðurland er á topp 10 lista áfangastaða í Evrópu sem ferðavefurinn Lonely Planet bendir ferðalöngum sérstaklega á að heimsækja í ár.
Í umfjöllun Lonely Planet er fjallað um nokkra staði sem vefurinn telur líklegt að geti átt auknum vinsældum að fagna á komandi árum og því ætti fólk að grípa tækifærið núna, áður en ferðamönnum fjölgar meira.
Ísland á allra vörum
Lonely Planet hefur umfjöllun sína á hinni miklu athygli og vinsældum sem Ísland nýtur nú um stundir. Ísland virðist einfaldlega vera á allra vörum, segir í frétt á vefnum. Í því sambandi er nefnt að ódýrara er að heimsækja landið en áður, vinsælar hljómsveitir, spennusagnahöfundar og að því er virðist alheimsþrá í að baða sig og slappa af í heitri laug.
Ekki bara Reykjavík
Hins vegar er bent á að flestir ferðamenn setji stefnuna á Reykjavík, Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Vefurinn mælir með því að fólk láti Norðurland ekki framhjá sér fara, heimsæki t.d. Akureyri, Grímsey og Jarðböðin við Mýtvatn.
Aðrir staðir í Evrópu sem Lonely Planet mælir með í ár eru:
Porto og Douro Valley í Portúgal
Budapest, höfuðborg Ungverjalands
Cinque Terre á Ítalíu
Moravia í Tékklandi
Bern í Sviss
Marseille í Frakklandi
Króatía
Norður Írland
Kaupmannahöfn