Málþing um tungumál og ferðaþjónustu
Þriðjudaginn 23. maí kl. 11-13 verður haldið málþing um tungumál og ferðaþjónustuna á vegum stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Yfirskriftin er Tungumálið og atvinnulífið ? ferðaþjónusta.
Frummælendur á þinginu verða:
Marion Lerner, menningarfræðingur og leiðsögumaður
María Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi samtaka ferðaþjónustunnar
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs ferðamálastofu
Erindi Marion ber yfirskriftina ?Náttúruskoðun á Íslandi: Þrjár ferðabækur í samanburði? og fjallar um samanburð á ferðabókum frá 1846, 1909 og 1989. Höfundar bókanna eru konur frá Þýskalandi og Austuríki sem ferðuðust til Íslands og skrifuðu um reynslu sína þar á landi. Greiningin fjallar sérstaklega um náttúrusýn og viðhorf til íslenskrar menningar sem fram kemur í skrifum þeirra.
María flytur erindið ?Menntun og fræðsla í ferðaþjónustu á Íslandi? og mun þar fjalla m.a. um nýlegar niðurstöður úr þarfagreiningu fyrir fræðslu og menntun í ferðaþjónustu sem unnin var að frumkvæði Samtaka ferðaþjónustunnar. Kynntar verðar helstu niðurstöður úr viðhorfskönnun um stöðu menntunar í greininni, framboð menntunar og með hvaða hætti er unnt að efla símenntun og starfsþróun í greininni. Fjallað verður um menntun ófaglærðra í greininni.
Ársæll mun tala um mikilvægi tungumála í markaðssetningu á ferðaþjónustu.
Málþingið fer fram í stofu 101 í Lögbergi og allir eru innilega velkomnir. Boðið verður upp á létt snarl að þinginu loknu.