Fara í efni

Mismunandi spáaðferðir bestar eftir tíðni og lengd spáa

Hveradalir í Kerlingarfjöllum. Mynd: Alexander Milo á Unsplash
Hveradalir í Kerlingarfjöllum. Mynd: Alexander Milo á Unsplash

Fyrstu afurðir og kynning Intellecon vegna spálíkans fyrir ferðaþjónustuna 
  

Síðastliðið haust samdi Ferðamálastofa við ráðgjafarfyrirtækið Intellecon ehf. um að þróa spálíkön fyrir ferðaþjónustu hér á landi. Fyrstu afurðum verkefnisins hefur nú verið skilað og voru kynntar á opnum fundi í liðinni viku. 

Tilgangur verkefnisins er m.a. að styrkja forsendur áætlanagerðar og stefnumótunar í greininni til skemmri og lengri tíma og búa til tæki til greiningar á áhrifum áfalla/búhnykkja og aðgerða stjórnvalda. Um er að ræða fyrsta áfanga í viðameiri spágerð fyrir ferðaþjónustuna.  

Verkefnið er hluti af rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2021-2023 en tilgangur hennar er fyrst og síðast að efla þekkingu á ferðaþjónustu sem lykilatvinnugrein og samspili hennar við aðrar megingreinar í íslensku efnahagslífi. Slík þekking og samsvarandi greiningartæki eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda, fyrirtækja í greininni og fjármögnunaraðila þeirra.  

Skýrslur um hagfræðilegar og tölfræðilegar forsendur spálíkana

Intellecon hefur nú skilað Ferðamálastofu fyrstu tveimur afurðum verkefnisins. Þetta eru skýrslur um hagfræðilegar og tölfræðilegar forsendur spálíkana fyrir ferðaþjónustu og val á besta spálíkani eða líkönum fyrir greinina. Um er að ræða vegpósta í verkefni sem er í fullum gangi og mun þróast áfram en gert er ráð fyrir að fullbúið spákerfi og fyrstu spár verði tilbúnar í lok næsta árs. 

 Niðurstöður Intellecon eru m.a. þær að: 

  • Við val á líkani sé mikilvægt að hafa tilgang og not spánna í huga 
  • Flókin spálíkön séu ekki endilega betri en einfaldari 
  • Líkön af ólíkum toga henti best til spágerðar í ferðaþjónustu eftir tíðni og tímalengd spár. Það þýðir m.a. að ólíkar breytur eru aðaldrifkraftar ferðaþjónustu eftir því hversu langt er litið fram í tímann 
  • Þótt nýjustu spáaðferðir sem notast við gervigreind og tauganet séu áhugaverðar þarf að þróa þær frekar auk þess sem erfitt er að túlka niðurstöður þeirra 

Nánari niðurstöður 

Ítarlegri og fræðilegri umfjöllun er að finna í skýrslum Intellecon. Skýrslurnar má nálgast hér að neðan ásamt upptöku frá hádegisfyrirlestri Ferðamálastofu og Ferðaklasans, þar sem Dr. Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon,  kynnti helstu álitaefni og niðurstöður fyrirtækisins í þessu efni, sem og kynningarefni Gunnars. 

Mynd Alexander Milo á Unsplash