Fara í efni

Mikil fjölgun frá Bandaríkjunum í sumar*

Mikil fjölgun frá Bandaríkjunum í sumar*

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í ágúst síðastliðnum voru um 291 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um sjö þúsund fleiri en í ágúst á síðasta ári.

Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir í ágúst í ár og fjölgaði þeim verulega frá árinu áður eða um 30,6%. Fækkun var í brottförum Þjóðverja, Frakka, Breta og Kanadamanna, næstfjöl-mennustu þjóðernanna í ágúst en hún var á bilinu 10-22%.

Sé litið til nýliðins sumars í heild má sjá mun minni fjölgun í brottförum erlendra farþega en síðustu ár. Þannig var aukning yfir sumarmánuðina nú 3,3% á milli ára samanborið við 17,1% aukningu milli ára 2016-2017, 30,9% milli ára 2015-2016 og 24,4% milli ára 2014-2015.

Frá áramótum hafa tæplega 1,6 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 4,4% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

*Fréttin hefur verið uppfærð frá upphaflegri útgáfu vegna leiðréttinga á brottfarartölum.


Erlendum farþegum fjölgaði um 2,5% í ágúst

Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi voru um 291 þúsund í ágúst síðastliðnum eða um sjö þúsund fleiri en í ágúst á síðasta ári. Fjölgunin nemur 2,5% milli ára. Í samanburði við árin þar á undan fjölgaði brottförum um 17,6% milli ára 2016-2017, 27,5% milli ára 2015-2016 og 23,4% milli ára 2014-15.

Sé litið til brottfara í ágúst nú hefur orðið tæp tvöföldun frá árinu 2014. Fjölgunin hefur verið að jafnaði 17,8% á milli ára á tímabilinu.

12 fjölmennustu þjóðernin

Þegar litið er til 12 fjölmennustu þjóðernanna má sjá að Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir í ágúst eða þriðjungur farþega. Brottfarir Bandaríkjamanna voru um 97 þúsund talsins í ágúst og fjölgaði um 23 þúsund milli ára eða 30,6%.

Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar og Frakkar með 13,6% hlutdeild en Þjóðverjum fækkaði um 21,8% milli ára og Frökkum um 13,0%. Fækkun var milli ára hjá átta af þeim níu þjóðernum sem fylgdu þar á eftir. Einungis Pólverjum fjölgaði í ágúst milli ára og það um 28,8%.

 

Dregur úr aukningu að sumri

Sé sumarið (júní-ágúst) í heild skoðað má glögglega sjá að dregið hefur verulega úr fjölgun brottfara erlendra farþega. Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð fjögur ár aftur í tímann. Fjölgunin í sumar var 3,3% frá því í fyrra, í samanburði við 24,2% milli ára 2014-15, 30,9% milli ára 2015-216 og 17,1% milli ára 2016-2017. 

 

Bandaríkjamenn bera uppi fjölgunina

Sé breytingin skoðuð nánar má sjá fækkun frá öllum mörkuðum í ár frá því í fyrra nema frá Norður-Ameríku (+22,8%) og þeim löndum sem falla undir "annað" (+4,9%). Þannig fækkaði Norðurlandabúum um 18%, Bretum um 12% og Mið- og Suður-Evrópubúum um 16%.

Þegar er horft er lengra aftur í tímann má sjá í langflestum tilfellum aukningu milli ára, þá einkum frá Norður Ameríku en Norður-Ameríkubúum fjölgaði mest, eða um 54% milli ára 2014-2015, 65% milli ára 2015-2016 og 28% milli ára 2016-2017. Um er að ræða fjórföldun Ameríkana á tímabilinu.

 

Breytt samsetning að sumri

Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara að sumri (júní-ágúst) er skoðuð síðastliðin ár má sjá að hún hefur breyst nokkuð eins og sjá má að grafinu hér til hliðar. Árið 2018 voru um tveir af hverjum fimm farþegum frá Norður-Ameríku en hlutdeild þeirra hefur aukist ár frá ári. Á sama tíma hefur hlutdeild Norðurlandabúa, Breta og Mið- og Suður-Evrópubúa minnkað. Hlutdeild þeirra sem falla undir annað hefur verið á líku róli frá 2014 eða á bilinu 22-25%.

 

Fjölgun þjóðerna gefur betri mynd 

Fjölgun þjóðerna í brottfarartalningu Ferðamálastofu og Isavia í júní 2017 gefur betri mynd af samsetningu farþega eftir markaðssvæðum. Eins og sjá má af gröfum hefur Norður-Ameríkönum fjölgað mikið milli ára 2017-2018 og þar með aukið hlutdeild sína. Mið-Evrópa er annað stærsta markaðssvæðið í sumar með 18% hlutdeild, þar á eftir koma Asíulönd með um 8% af markaðinum, Norðurlandabúar með 7% og íbúar Bretlandseyja, Suður-Evrópubúar og Austur-Evrópubúar með 6% hver.

Ferðir Íslendinga utan

Um 56 þúsund Íslendingar fóru utan í ágúst í ár eða 4,5% fleiri en í ágúst 2017. Brottfarir í sumar voru um 193 þúsund talsins árið 2018 eða 8,5% fleiri en árið 2017.

Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til ágúst um 445 þúsund talsins eða 9,9% fleiri en á sama tímabili árið 2017.

**Nánari upplýsingar

Talning Ferðamálastofu og Isavia er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu áður en komið er inn á brottfararsvæði og tölurnar ber að skoða með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér. Talningarnar ná yfir alla sem fara í gegnum hefðbundna öryggisleit.
Ítreka ber að flestir skiptifarþegar eru ekki inn í þessum tölum. Niðurstöður úr könnun sem Isavia lét framkvæma meðal brottfararfarþega sumarið 2017 benda til að um 86,3% brottfararfarþega að sumri séu að heimsækja Ísland í persónulegum eða viðskiptalegum tilgangi og að 2,7% séu erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis til skemmri eða lengri tíma. Þeir sem millilenda án þess að fara út af flugvellinum séu 4,8% og þeir sem millilenda og nýta tækifærið til að fara út af flugvellinum og heimsækja einhverja staði séu 6,2%. Sjá nánar
Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.