Norðurslóðaáætlun 2007 - 2013
Norðurslóðaáætlun 2007-2013 hófst formlega með sérstakri ráðstefnu í Aviemore, Skotlandi dagana 20.-21. febrúar síðastliðinn. Samtals er varið til áætlunarinnar 45 milljónum evra og gert er ráð fyrir mótframlögum verkefnaþátttakenda að fjárhæð um 33.6 milljónum evra.
Þátttakendur á ráðstefnunni komu af öllu starfssvæði áætlunarinnar og voru samtals yfir 100, þar af 12 frá Íslandi, aðallega lykilaðilar úr atvinnulífi, rannsókna- og háskólasamfélagi og stjórnvöldum bæði á lands og héraðavísu. Frummælendur komu frá Evrópusambandinu, skoskum stjórnvöldum og háskólum er vinna að svæðaþróun. Sérstaða norðursvæða Evrópu og lýðfræði var aðal umfjöllunarefni ráðstefnunnar. Meðal þátttakenda frá Íslandi voru fulltrúar atvinnuþróunarfélaga, vaxtaramninga, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum, auk Byggðastofnunar og Iðnaðarráðuneytis. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður uplýsinga og þróunarsviðs, sótti fundinn fyrir hönd Ferðamálastofu.
Starfað var í vinnuhópum til að móta stefnu og áherslur varðandi framtíðar verkefni sem hefðu mikla þýðingu fyrir starfssvæði áætlunarinnar m.a. á sviðum samgangna og upplýsingatækni. Unnið verður áfram með þær áherslur er fram komu í vinnuhópum innan stjórnar áætlunarinnar og þær nýttar við frekari skilgreiningu á áherslu sviðum og vinnslu verkefnahugmynda innan NPP 2007-2013. Sérstakt verkefnastefnumót verður síðan haldið í Umeå Svíþjóð í september n.k
Starfssvæði áætlunarinnar
Norðurslóðaáætlun 2007-2013 nær landfræðilega yfir mjög víðfeðmt svæði en þátttökulönd eru Evrópusambandslöndin, Skotland, Norður Írland, Svíþjóð, Finnland og Írland auk Noregs, Íslands, Grænlands og Færeyja. Hin mismunandi svæði áætlunarinnar eru margbreytileg en hafa jafnframt ákveðin sameiginleg einkenni sem m.a. felast í veðurfarsaðstæðum norðurslóða, miklu dreifbýli, löngum vegalengdum og fl. Fjölþjóðleg samvinna innan Norðurslóðaáætlunar gefur ákveðin tækifæri til að þróa og finna nýjar leiðir til bættra búsetuskilyrða í víðum skilningi.
Næsti umsóknarfrestur
Annar umsóknarfrestur áætlunarinnar er nú opinn og lokar 7. mars 2008. Opið er fyrir umsóknir í báðar áherslur áætlunarinnar:
1. Nýsköpun og samkeppnishæfni
2. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda og samfélags.
Á fyrsta umsóknarfresti voru samþykkt 12 ný aðalverkefni með heildarverkefniskostnað að fjárhæð 13.6 milljónir evra. Jafnframt hafa 9 forverkefni verið samþykkt sem hafa að megin tilgangi að vinna að gerð aðalumsókna. Þriðji umsóknarfrestur áætunarinnar opnar 20. júní og lokar 26. september 2008 en umsóknir um forverkefni eru ekki bundnar neinum sérstökum umsóknartíma.
Íslenskir þátttakendur
Eftirfarandi eru nú þegar þátttakendur í verkefnum Norðruslóðaáætlunar 2007-2013.
- Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, Ferðamálasetur Íslands, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar - North Hunt, Sustainable Hunting Tourism
- Rannsóknasetur Háskóla Íslands, Höfn Hornafirði, Háskólasetrið Húsavík, Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum, Þróunarstofa Austurlands, Kirkjubæjarstofa, Þjóðgarðurinn Skaftafelli og sveitarfélögin Hornafjörður, Skaftárhreppur, Fljótsdalshérað og Norðurþing - NEED, Northern Environment Education Development
- Héraðsskógar, Austurlandsskógar og Skógrækt ríkisins - PELLETime ? Solutions for competitive pellet production in medium size enterprices
- Fruman Nýheimum, Höfn Hornafirði og Fræðslunet Austurlands - Economuseum Northern Europe
Tengiliður áætlunarinnar hérlendis er Þórarinn Sólmundarson hjá Byggðastofnun, thorarinn@byggdastofnun.is