Notkun markaðsfjármuna fyrir árið 2007
Samgönguráðherra hefur að fenginni tillögu Ferðamálastofu, og að fenginni umsögn Ferðamálaráðs um tillöguna, falið Ferðamálastofu að vinna að markaðsaðgerðum á komandi ári í anda hennar. Meiri opinberir fjármunir verða nú til notkunar á erlendu markaðssvæðunum en á yfirstandandi ári.
Árið 2006 voru alls 41 milljón til beinna aðgerða á svæðunum, en nú verða 99 milljónir til beinna aðgerða á komandi ári.
- Í N.-Ameríku verða 23 milljónir til beinna aðgerða 2007, en voru 10 milljónir í ár.
- Á Bretlandseyjum verða 22 milljónir á móti 8 milljónum á þessu ári.
- Á Norðurlöndunum verða einnig 22 milljónir í stað 8 milljóna á þessu ári.
- Á Meginlandi Evrópu verða 25 milljónir, en þar voru 10 milljónir á þessu ári.
- Loks verða 7 milljónir til verkefna í Asíu en þar voru 5 milljónir á þessu ári.
Þessu til viðbótar eru síðan 55 milljónir frá samgönguráðuneytinu til samstarfsverkefnisins Iceland Naturally í Evrópu og 52 milljónir til Iceland Naturally í N.-Ameríku.
Alls eru því af hálfu samgönguráðuneytisins settar 206 milljónir til markaðsverkefna á erlendum markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu á árinu 2007.
Þessir fjármunir nýtast til beinna verkefna þar sem allur rekstur og vinna við framkvæmd verkefnanna er fjármögnuð með fjárveitingum til Ferðamálastofu sem annast framkvæmd verkefna á skrifstofum sínum bæði á Íslandi og erlendis.
?Ástæður þess að meiri fjármunir eru nú til beinna verkefna á okkar markaðssvæðum 2007 en 2006 eru í meginatriðum tvær,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. ?Í fyrsta lagi eru meiri fjármunir til ráðstöfunar frá samgönguráðuneyti til verkefna en einnig hefur Ferðamálastofa úr meiri fjármunum að spila en á síðasta ári og getur því fjármagnað af sínu ráðstöfunarfé ýmsa almenna grunnþætti í markaðsmálum allra svæðanna og fleiri verkefni sem áður þurfti að fjármagna af fjárveitingu til markaðsaðgerða í ferðaþjónustu. Þá er gert ráð fyrir að hluti fjármagnsins fari til sameiginlegra verkefna með aðkomu hagsmunaaðila á viðkomandi svæðum og þannig aukist enn frekar heildarfjármagn til markaðsverkefna? segir Magnús.