Ný herferð fyrir ferðaþjónustu - Ísland sendir auglýsingaskilti út í geim
Ný herferð fyrir íslenska ferðaþjónustu hvetur vongóða geimferðalanga til að hugleiða Ísland sem álitlegri áfangastað
Ísland er fyrsti áfangastaður í heimi til þess að sækja sérstaklega á hóp geimferðalanga með því að senda auglýsingaskilti út í geim. Aðgerðin er hluti af nýrri herferð Íslandsstofu fyrir áfangastaðinn Ísland, sem fór í loftið í dag, og nefnist Mission Iceland. Skilaboðin eru einföld: Ísland er betri áfangastaður en geimurinn.
Með aðstoð veðurloftbelgs sveif auglýsingaskiltið um heiðhvolfið með einföld skilaboð: „Iceland. Better Than Space“ Eða „Ísland. Betra en geimurinn.“
Fjöldi fólks hefur skráð sig á biðlista fyrir geimferðalög með fyrirtækjum sem sérhæfa sig í slíkri ferðaþjónustu. Áætlaðri brottför slíkra ferðalaga hefur þó ítrekað verið seinkað. Geimauglýsingaskiltinu er ætlað vekja athygli á því að mögulega sé verið að sækja vatnið yfir lækinn.
„Ísland er um margt líkt Mars. Ef Mars hefði heita potta,“ segir í myndbandi sem fylgir herferðinni. Í myndbandinu ber leikarinn Sveinn Ólafur Gunnarsson saman kosti þess að ferðast til Íslands og ferðast til geimsins, og samanburðurinn er iðulega Íslandi í vil. Ferðalagið er ódýrara, maturinn er ferskur en ekki frostþurrkaður, og nóg er af súrefninu.
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu:
„Við höfum séð auknar vinsældir geimferðalaga undanfarin tvö ár, og sumir telja jafnvel að þetta sé framtíðar áfangastaður hinna ofur-ríku. Við viljum setja þessa tískubylgju í samhengi og benda á að það er hægt upplifa ójarðneska fegurð hér á Íslandi og margt annað sem er einstakt í heiminum.“
Auglýsingaskiltið hóf sig á loft skammt frá Kleifarvatni. Þaðan reis það í rúmlega 35.000 metra hæð og sveif sem leið lá austur með landinu þar til það kom aftur til jarðar um tveimur tímum síðar skammt suður af Mývatni. Þangað sótti björgunasveitin Stefán í Reykjahlíð skiltið.
Herferðin er hluti af markaðsaðgerðum Ísland – saman í sókn. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Leikstjórn og framleiðsla myndbandsins var í höndum Allan Sigurðssonar, í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og bandarísku auglýsingastofuna SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu.