Nýja Norræna til Seyðisfjarðar í mars
Seyðisfjörður verður einn af viðkomustöðum nýrrar Norrænu í reynslusiglingu hennar í mars næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.
Aðeins er ár liðið frá því kjölur var lagður að Norrænu í skipasmíðastöðinni í Flensborg í Þýskalandi. Skipið var sjósett í lok ágúst sl. og verður afhent eigendum, Smyril line, fullbúið um miðjan mars. Fyrsta reynslusiglingin verður farin skömmu seinna og þá m.a. komið til Seyðisfjarðar. Þar hefur sem kunnugt er verið unnið að endurbótum á hafnaraðstöðu með tilliti til nýja skipsins. Áætlunarferðir Norrænu hefjast síðan í maí.
Hin nýja Norræna mun taka 1.500 farþega í misstórum klefum, sem allir eru búnir salerni og sturtu. Hún getur tekið 700 til 800 bíla auk ýmiss konar fragtar. Hún er 163 metrar að lengd, 30 metrar að breidd og um 40.000 brúttótonn.
Myndin er fengin af heimasíðu Smyril Line.