Fara í efni

Nýjar tröppur við Seljalandsfoss

Seljalandsfoss
Seljalandsfoss

Á dögunum voru nýjar tröppur við Seljalandsfoss formlega teknar í notkun. Verkefnið var meðal þeirra sem hlutu styrk frá Ferðamálastofu á þessu ári vegna úrbóta á ferðamannastöðum.

Nýju tröppurnar bæta verulega aðgengismál við fossinn en sem kunnugt er ganga þúsundir ferðamanna á bakvið hann á hverju ári. Mikið var lagt upp úr hönnun á tröppunum þannig að þær myndu bæði falla vel á landinu, valda sem minnstri röskun og jafnframt auka öryggi gesta. Ferðamálastofa styrkti sveitarfélagið Rangárþing eystra um 2 milljónir króna vegna verksins, sem var um þriðjungur af heildarkostnaði.

Umsjón með verkefninu hafði Oddur Hermannsson hjá Landform ehf. á Selfossi en uppsetning var í höndum Vélsmiðjunnar Magna á Hvolsvelli.